Kjarninn var fluga á vegg fyrr í sumar, þegar teymin sem unnið hafa að framgangi hugmynda sinna í Startup Reykjavík viðskiptahraðlinum, hittust fyrst í starfsaðstöðu sinni í Borgartúni. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, og hafa hugmyndirnar sem unnið er með þroskast og breyst. Frumkvöðlarnir sem vinna að þróun á vörum sínum og viðskiptahugmyndum hafa verið á fullri ferð, ef svo má segja, og hafa þeir meðal annars sótt þekkingu til reynslumikilla einstaklinga úr nýsköpunarumhverfinu hér á landi.
Spennandi verður að sjá hvernig lokaútkoman verður, þegar hugmyndirnar verða kynntar fyrir fjárfestum, á sérstökum fjárfestadegi, í lok hraðalsins.
https://vimeo.com/132106337
Verkefnin sem valin hafa verið til þátttöku í Startup Reykjavík nú í sumar:
- Wasabi Iceland – Ætla að rækta hágæða wasabi á Íslandi með því að nýta hreint vatn og endurnýjanlega orku
- Ludis – Þróa leikjavettvang sem gerir leikjahönnuðum kleift að hanna og notendum að spila leiki sem nota samskipti á milli sjónvarps og síma
- Elsendia – Tengir saman rafræn skilríki og rafræna lyfseðla. Fólk getur keypt lyf á netinu með öruggum hætti og fengið sent heim
- Viking Cars – Markaðstorg þar sem bílaeigendur geta deilt bílnum sínum með öðrum með öruggum hætti. Í raun eins og Airbnb nema fyrir bíla.
- Spor í sandinn – Sjálfbær gróðurhús tengd sundlaug í hjarta borgarinnar bjóða upp á sölu staðbundinna matvæla og nýja upplifun í ferðaþjónustu fræðslu og afþreyingu
- Genki instruments – Eru að þróa nýstárleg raftónlistarhljóðfæri sem tengja má saman með áður óséðum hætti
- Datadrive – Hugbúnaður sem tekur við upplýsingum úr bílnum þínum og tengir beint við snjallsímann
- Delphi – Nýta þekkingu fjöldans til þess að spá fyrir um tiltekna viðburði í framtíðinni
- Study Cake – Hugbúnaður sem hjálpar kennurum að skilja og meta árangur nemenda með því að bjóða upp á krossaspurningar í gegnum vef og snjallsíma
- Hún / Hann Brugghús – Örbrugghús með áherslu á frumlega gæðabjóra í takmörkuðu upplagi
Teymunum tíu sem valin hafa verið til þátttöku verður lagt eftirfarandi til:
- Tvær milljónir í hlutafé frá Arion banka gegn 6% hlutdeild í fyrirtækinu
- 10 vikna þjálfun/ráðgjöf frá mentorum víðs vegar að úr atvinnulífinu
- Sameiginleg aðstaða allra viðskiptateymanna
- Tækifæri til að kynna sig og verkefni sín fyrir fjárfestum á lokadegi verkefnisins.
Þetta er annað árið í röð sem Kjarninn fylgir Startup Reykjavík náið eftir, en allt frá stofnun Kjarnans hefur mikil áhersla verið lögð á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi ýmis konar, í efnistökum, og það sama má með segja um lítil og meðalstór fyrirtæki.
Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Klak Innovit, og eru myndböndin unnin í samstarfi við hraðalinn.