Fjöldi kvenna miðað við karla í heimi nýsköpunar hefur ávallt verið nokkuð lítill. En það þýðir samt ekki að þær eigi minni möguleika á velgengni eða að hugmyndaauðgi þeirra sé eitthvað verri en karla.
Hjá Product Hunt hefur verið tekinn saman listi yfir vörur sem hannaðar og framleiddar eru af konum. Eru þar margar stórkostlegar hugmyndir sem maður getur vel hugsað sér að verði orðnar skyldueign allra á næstu árum. Hér að neðan fer listi yfir álitlegustu hugmyndirnar á listanum.
Þráðlaus hleðsla fyrir allt
[embed]http://www.youtube.com/watch?v=ukgnU2aXM2c[/embed]
Meredith Perry var föst á fyrirlestri í háskólanum sínum með batteríslausa fartölvu og ekkert hleðslutæki þegar hún áttaði sig á að úr svona aðstæðum mætti komast með einfaldri lausn. uBeam varð til en það losar alla undan mest óþolandi hluta nútímans: hleðslutækjum. Með úthljóðum hleður uBeam farsíma og -tölvur þráðlaust. uBeam hefur fengið 13,2 milljónir bandaríkjadala í fjármögnun.
Sjálfvirkur skipuleggjari
Hver á ekki í endalausu basli við að koma öllum verkefnum dagsins fyrir á einum degi? Clara Labs er sjálfvirkt kerfi sem virkar eins og stafrænn aðstoðarmaður þinn. Clara Labs hjálpar þér að skipuleggja fundi og flokkar póstinn þinn fyrir þig. Maran Nelson er einn stofnenda fyrirtækisins sem hefur hlotið mikið hól, þrátt fyrir að hafa enn ekki fjármagnað verkefnið að fullu.
Fullkominn brjóstahaldari
Michelle Lam er búin að finna upp hinn fullkomna brjóstahaldara. Fyrirtæki hennar True&Co býður konum upp á að fylla út spurningalista á vefsíðu sinni og að því loknu er hægt að kaupa brjóstahaldara sem passar fullkomlega. Teymi Lam hefur nefnilega búið til algrím sem reiknar út bestu stærðir og laganir brjóstahaldara fyrir hvern viðskiptavin, með því að nota gögn frá meira en milljón konum.
True&Co hefur fengið sex milljónir dala í fjármögnun síðan 2012.