Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.

Bibbi bloggar úr Evróputúr Skálmaldar: Belfast

DSCF3827-1.jpg
Auglýsing

Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.

Klukkan er 2.58. Hér er partý, hinar rúturnar eru farnar og við þeir einu sem hafa ákveðið að hafa nætursetu. Þessi dagur var ekkert minna en algerlega stórkostlegur! Þessi færsla ritast eins og hún kemur. Ég tek um það bil 75% ábyrgð á því sem á eftir fer.

DSCF3825 copy Tónlistarkennarinn Gunnar Ben, fylgist hér með stöðu mála.

Auglýsing

Árið 2011 var fyrsta árið sem Skálmöld túraði af einhverri alvöru um Evrópu. Þá ferðuðumst við með 5 öðrum böndum og mynduðum tengsl sem rofna seint. Eitt af þessum böndum var Finntroll, með þeim túruðum við aftur í fyrra og eftir það fengum við lungann af þeim félögum í heimsókn til Íslands. Bara svona í frí. Það var gaman. Annað band af þeim túr var Arkona sem við erum svo aftur að túra með núna. Rússar af bestu gerð, gefa ekki mikið af sér við fyrstu kynni en svo miklu mun meira eftir því sem á líður. Eftir því sem lengra dregur á þennan túr sýna þau af sér svo mikinn höfðingsskap að mann setur hálfhljóðan. Svipleysi og hæglyndi eru vissulega þeirra ær og kýr en þegar á reynir er þetta fólk sem meinar það sem það segir. Það fáa sem það segir.

Þriðja bandið sem við kynntumst á umræddum túr árið 2011 var sjóræningjametalbandið Alestorm. Þar fara fimm drengir sem finnst gaman að vera í hljómsveit. Okkur kom óskaplega vel saman þá en höfum ekki hist síðan. Okkur bassaleikara bandins kom alveg sérlega vel saman og við höfum haldið sambandi. Sá heitir Gareth, gengur dags daglega undir gælunafninu Gazz, og er búsetur í Belfast. Og þar spiluðum við einmitt í dag. Gazz hafði spottað það fyrir mörgum vikum að hér myndum við spila í dag, löngu á undan mér. Hann sendi mér línu yfir alnetið þá um leið og lofaði mér að hann skyldi sýna alla sína mögulegu gestrisni er við kæmum hingað. Og við það stóð hann. Heldur betur.

Ferjuferðin yfir til Norður-Írlands var svo sem tíðindalaus. Við þurftum auðvitað að rífa okkur úr koju á afskaplega ólíklegum tíma til þess eins að sitja uppréttir á leið yfir. Ferðin tók kannski tæpa 3 tíma, sjóveður alls ekki frábært, en vitanlega löðurmannlegt verkefni fyrir jafnsjóaðan hvalaskoðunargæd og mig sjálfan. Ekki er ég viss um að alvöru sjómenn myndu gefa mikið út á þessa sjóreynslu mína, en ég taldi mig þó fremur hressan meðan aðrir hálfmóktu í sætunum. Um leið og ferjan snerti land kastaði ég mér í koju og reyndi að græða eins mikinn svefn og ég gat.

Vekjaraklukkan hringdi um hálf12 og ég náði að rífa mig á lappir um 20 mínútum seinna. Ég var alveg helryðgaður en lagði ótrauður í hann og rölti stefnulaust til að finna netkaffi og þannig samband við Gazz. Ég tók fyrst hægri beygju og síðan vistri. Þar fann ég hraðbanka fyrir slysni og var þá enn að rembast við að opna augun. Peningarnir runnu út úr maskínunni, ég reif þá úr raufinni, pakkaði í veskið mitt og tók slembistefnu til vinstri. Og þá sé ég Gazz. Bara svona röltandi eftir gangstéttinni. Við höfðum jú ætlað að hittast, en til Belfast hef ég aldrei komið, og reyndar aldrei til Norður-Írlands, og vissi ekkert hvar ég var. Þessir endurfundir voru sérlega sætir.

Dagurinn í dag fór svo bara í að skoða þessa stórfallegu borg. Það er ótrúlegt að ímynda sér að fyrir svo óskaplega stuttu síðan hafi geysað stríðsástand. Við fengum svona snartúr um umhverfið, sáum hvar Titanic hafið var byggt á sínum tíma og allskonar. Þetta tók passlegan tíma, og svo fórum við á pöbbinn. Þar drukkum við, rifjuðum upp sögur og bjuggum til nýjar. En ég er að gleyma einu.

Við litríkan vegg. Við litríkan vegg.

Á leið niður í bæ komum við við heima hjá Gazz og þar settum við í vél. Sjálfsögð þægindi á borð við þvottavélar og þrifaaðstöðu verða að vinum í eyðimörkinni á svona túrum. Plastpokinn sem ég hef verið að safna í frá byrjun var óþægilega þungur, og mest af svita. Ógeðslegum svita. Gazz býr með vinkonu sinni og hún tók á sig að þvo og þurrka af okkur í dag. Ef ég ætti ekki von á barni hefði ég beðið um hönd hennar. Hér í rútunni brakar allt þegar menn hreyfa sig, þvílík hreinindi eru í hverju horni. Og þessu ævintýri var alls ekki lokið.

Eftir pöbbaröltið héldum við á venjúið til sándtékks. Það gekk mjög vel, salurinn góður, fólkið með á nótunum og allt einstaklega auðvelt eftir nokkra Guinness. Klukkutíma síðar var svo blásið til tónleika sem gengu ljómandi. Sándið var frábært, við spiluðum afskaplega vel og allt eins og best verður á kosið nema hve fólksfjöldinn var alls ekki nægur. Við náðum þó upp ágætri stemningu og komum sáttir af sviði. Við urðum svo enn sáttari þegar í ljós kom að hin böndin spiluðu fyrir síst fleiri. Svona er þetta víst bara í Belfast segir Gazz. Hér búa fáir og enn færri mæta á tónleika. Fáir segir hann. Hér búa um það bil jafnmargir og á Íslandi.

Trommari Alestorm mætti líka á tónleika. Sá heitir Peter og er álíka meistarasnillingur og Gazz. Þvílík gleði að hitta þessa menn á ný. Eftir gigg rótuðum við dótinu okkar í kerruna í snatri og eftir það héldum við þrír, ég, Gareth og Flex, í þvottavélarátt til að ná í það sem út af stóð af óhreinatauinu. Þar var allt meyjarhreint og samanbrotið. Ég misnotaði aðstöðuna enn frekar og laumaði mér í sturtu. Mig grunar að ég hafi tæmt alla líkamshreinsiefnabrúsana hans Gazz. Þetta var unaður og ég sit ég tandurhreinn og skrifa þessa færslu.

Klukkan er 3.36. Hinar rúturnar eru farnar en við ætlum að hinkra þar til 10 í fyrramálið. Á morgun spilum við í Dublin og þangað er ekki nema kannski tveggja tíma akstur. Kvöldið leystist upp í fyllerí, kannski mögulega fyrir okkar sakir, en það gat af sér allskonar skemmtilegt trúnó. Þetta er skemmtilegur túr og með okkur fullt af allskonar skemmtilegu fólki.

Það skemmtilegasta er þó að Gareth ætlar sennilega að lauma sér í aukakojuna og fylgja okkur til Dublin. Hann, Jón og Baldur eru hér fyrir utan rútuna að rökræða þetta allt saman, Gunni er að brasa eitthvað misgáfulegt hér fyrir innan og er á náttfötunum, hinir eru í koju. Nú hætti ég að skrifa. Ég ætla að leggja öll möguleg lóð á skálarnar og lokka Gazz inn í rútuna.

Þetta var frábær dagur.

Meistaralegt dagsins: Að hitta gamla vini.

Sköll dagsins: Í Belfast lokar allt klukkan eitt um helgar. Ég er svangur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiKjarnafæði
None