Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Í gær var á það bent að gengi bréfa í N1 hefði hækkað um ríflega 50 prósent frá því í júlí, og síðan til dagsins í dag, samhliða verðfallinu á olíu á heimsmörkuðum. Það er þó eðlilegt að halda því til haga, að ákveðið var að lækka hlutafé félagsins um tæplega fjóra milljarða króna í október, og greiða út til hluthafa, eins og Kjarninn greindi raunar ítarlega frá. Í því samhengi er ekki óeðlilegt að markaðsvirðið hafi hækkað. Gagnvart almenningi, sem kannski þekkir ekki þennan bakgrunn, kann það að skjóta skökku við að gengi bréfa félagsins hækki mikið á sama tíma og miklar hremmingar herja á olíuiðnaðinn í heiminum. Í Noregi hefur þetta samhengi verið nokkuð skýrt, enda olíuiðnaðurinn undirstöðuatvinnuvegur í landinu. Hlutabréf hafa fallið í landinu að undanförnu, og í gær hrapaði gengi norsku krónunnar, um átta prósent gagnvart evrunni. Fyrirhyggja Norðmanna þegar kemur að olíusjóðnum norska sannar sig ekki síst í stöðu sem þessari. Í gær, þegar gengi norsku krónunnar féll gagnvart erlendum myntum, þá hækkuðu eignir olíusjóðsins um sambærilegt hlutfall mælt í norskum krónum. Þar sem um 95 prósent af eignum sjóðsins eru bundndar í erlendum eignum og erlendum myntum. Þetta er áhættudreifing sem væri óskandi að íslenska lífeyrissjóðakerfið byggi við. En það svo sannarlega ekki raunin, í haftahagkerfinu.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.