Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Á dögunum voru allir ákærðu í hinu svokallaða Aserta-máli sýknaðir, þeir Gísli Reynisson, Markús Máni Michaelsson Maute, Karl Löve Jóhannsson og Ólafur Sigmundsson. Málið snýst um umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti eftir hrunið 2008 og fram á árið 2009. Þetta kom ekki öllum á óvart, sem höfðu fylgst með málinu, þó alltaf megi deila um forsendur fyrir niðurstöðum dóma. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar, en sú ákvörðun er á borði Ríkissaksóknara. Í Aserta-dómnum stendur meðal annars orðrétt: „Þegar bankinn neytti þessarar heimildar fórst fyrir að afla samþykkis ráðherra fyrir útgáfu reglnanna sem hafði meðal annars í för með sér að ekki verður refsað fyrir brot á þeim.“ Fari svo að Hæstiréttur staðfesti þetta er ljóst að fjöldi gjaldeyrismála sem gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands og embætti sérstaks saksóknara hafa haft til rannsóknar, undanfarin ár, eru í uppnámi.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.