Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Bréfritari fékk áhugavert símtal á dögunum. Þar var talað fyrir sjónarmiðum, sem voru einföld en um leið athyglisverð og með sterkum siðferðisboðskap. Í stuttu máli voru þau þessi: Stjórnvöld hafa nú einstakt tækifæri til þess að bæta almenningi á Íslandi upp gríðarlegt og umfangsmikið tjón sem föllnu bankarnir ollu með óábyrgum og ólöglegum viðskiptaháttum áður en þeir hrundu til grunna. Almenningur reisti hagkerfið við aftur, að miklu leyti með því að taka lán. Íslenska ríkið er nú skuldum vafið og með fjármagnshöft sem eru farin að skaða framtíðarmöguleika fólks. Stjórnvöld verða nú að sækja fé í þrotabú föllnu bankanna og einfaldlega bæta tjónið. Hvers vegna eiga skattgreiðendur að sitja uppi með tjón þessara banka? Snýst þessi staða sem núna er uppi ekki um þetta, að einfaldlega leiðrétta tjónið?
Svo mörg voru þau orð. Það verður forvitnilegt að sjá hvort þessi sjónarmið muni ráða för við afnám fjármagnshaftanna.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.