Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Móðir allra leiðréttinga verður að veruleika ef lánveitendur þurfa að greiða lántakendum mörg hundruð milljarða, jafnvel þúsund milljarða, til baka vegna þess að ekki var heimild til þess að miða við 0 prósent verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði verðtryggðra lána, líkt og álit EFTA segir til um. Í versta falli getur íslenska ríkið farið á hausinn. Hæstiréttur á síðasta orðið, og best að segja sem minnst á þessum tímapunkti. Það er hins vegar umhugsunarefni, hvernig mál hafa þróast hér á landi á undanförnum árum og áratugum og hvaða sannleika dómstólar hafa leitt í ljós með dómum sínum. Að mati bréfritara blasir við hversu máttlaust og óvandað regluverkið hefur verið á íslenskum fjármálamarkaði á löngu tímabili, frá því löngu fyrir hrunið. Dæmin blasa við. Gengistryggingin var dæmd ólögmæt, og fengu gengistryggðar lánveitingar í krónum að viðgangast árum saman án þess að nokkur lyfti litla fingri. Þær sköpuðu stórhættu fyrir þjóðarbúskapinn. Það sama á nú við um útreikning á heildarlántökukostnaði þegar kemur að verðtryggðum lánum. Árum, jafnvel áratugum, saman hefur verklag sem ekki stenst lög, ef álit EFTA er haft til hliðsjónar, fengið að viðgangast. Hvernig stendur á þessu? Stjórnmálamenn bera á þessu mikla ábyrgð. Þeir búa til leikreglurnar, lögin í landinu og eftirlitsstofnanir starfa í umboði þeirra. Ætli þeir muni ræða um ábyrgð sína á þessari stöðu? Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.