Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Nánast um leið og Læknafélag Íslands hóf verkfallsaðgerðir, til þess að knýja á um betri launakjör, bárust fréttir af því að 83 prósent háskólaprófessora væru fylgjandi því að grípa til verkfallsaðgerða í desember til þess að knýja á um betri laun. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í að lýsa þessum veruleika. Þetta er alvarleg og dapurleg staða. Stjórnvöld eru nú með erfiða stöðu í höndunum, fjárlög næsta árs bíða samþykktar í þinginu fyrir áramót, og þessar mikilvægu starfsstéttir freista þess að ná fram betri kjörum með verkfallsaðgerðum. Eitt í þessu ætti að vekja fólk til umhugsunar. Læknisfræði er alþjóðleg menntun, og prófessorstöður eru einnig aðeins í boði fyrir fólk sem hefur alþjóðlega þekkingu á viðfangsefni sínu. Kjör þessara stétta eru af þessum ástæðum samanburðarhæf við sambærileg störf í öðrum löndum, ef horft er til samkeppnishæfni þjóðarinnar. Því miður eru kjörin hér órafjarri því sem býðst víðast hvar annars staðar, og verða líklega um langa framtíð. Einkum og sér í lagi ef sjálfstæð peningastefna íslensku krónunnar verður ofan á í öllum rökræðum.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.