Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, kom mörgum á óvart með nýjasta útspili sínu, þegar hann ákvað að fá Ólöfu Nordal aftur inn í íslensk stjórnmál sem innanríkisráðherra. Hún kemur að borðinu þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, var þar til hún sagði af sér vegna lekamálsins. Hér vaknar spurningin; er Bjarni að styrkja stöðu sína og Sjálfstæðisflokksins með þessari skipan utanþingsráðherra? Að mati bréfritara er svarið við því, já. Ólöf er sterkur stjórnmálamaður, sýndi það á þingi, og var vel liðin af samherjum og andstæðingum sömuleiðis. Hún getur verið hörð, en snjöll í samskiptum. Þá er hún einkar vel liðin hjá konum í Sjálfstæðisflokknum og raunar einnig í öðrum flokkum. Að þessu leyti er augljóst að Ólöf er hæf í starfið. Mesta áhættan hjá Bjarni gæti falist í því að þingflokkurinn telji sig svikinn. En að sama skapi eru þetta skilaboð hjá Bjarna. Hann þorir að taka erfiðar ákvarðanir eins og þessar, og gerir auk þess ekki upp á milli þingmanna. Það er mikilvægt, og getur aukið á samheldni í hópnum þegar farið verður í gegnum erfiðar ákvarðanir á næstu misserum.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.