Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Háskóli Íslands hefur leitt umræðu um bankahrunið og haldið reglulega fundi um ýmislegt sem því tengist. Þá er Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur að kenna metnaðarfullt námskeið um hrun bankanna, þar sem ítarlega er farið yfir málin. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og Guðni Th. héldu hádegisfund um hrun bankanna síðastliðinn miðvikudag þar sem farið var yfir nýjar upplýsingar um málin, meðal annars fundargerðir frá bankaráði Englandsbanka. Hannes Hólmsteinn virðist sannfærður um að Bretar eigi mikla sök á hruni bankanna. Athyglisvert er að velta þessari sýn upp, og hvernig hún blasir Davíð Oddssyni fyrrverandi formanni stjórnar Seðlabanka Íslands og nú ritstjóra Morgunblaðsins. Nýlega gagnrýndi hann ríkisstjórnina fyrir að skera niður fjárframlög til embættis sérstaks saksóknara, og það er alveg í samræmi við það mat sem hann hefur lagt á gögn um bankana og upplýsingar sem blasa við um innviði þeirra.
Í kjarnyrtu andmælabréfi sínu til Rannsóknarnefndar Alþingis segir hann meðal annars orðrétt. „Bankarnir höfðu bersýnlega verið notaðir um langa hríð með grófasta hætti sem einhvers konar þrautavaralánastofnanir fyrir yfirskuldsett og margveðsett fyrirtæki helstu eigenda bankanna og nánustu viðskiptafélaga þeirra. Rekstrar- og eignagrundvöllur þeirra var því hruninn, löngu fyrir þann tíma, sem í almennri umræðu og í þessum skýringum hafa verið kallaðir hrundagarnir. Þessari stöðu verður helst líkt við að læknar „opni“ sjúkling með krabbameinseinkenni og verði þegar ljóst að hann hafi verið fyrir löngu dauðanum helgaður, og engin læknisúrræði geri framar gagn.“ Þetta mat Davíðs virðist stangast á við sýn Hannesar. Það er ekki oft sem það gerist...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.