Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Á undanförnum árum hefur Róbert Guðfinnsson, athafnamaður og fjárfestir, staðið fyrir stórkostlegri uppbyggingu á Siglufirði, eins og greint hefur verið frá reglulega í fjölmiðlum. Nú er uppbygging á glæsilegu hóteli, Sigló Hótel, í gangi en það er ekki ólíklegt að eitthvað annað fylgi fljótlega á eftir, sé mið tekið af reynslu síðustu ára. Þessi jákvæða innspýting Róberts og annarra sem að þessu koma, dregur athyglina að því, hversu sjaldgæft það er að efnamenn geri þetta sama og Róbert hefur gert á Siglufirði. Það er að nýta peningana til uppbyggingar á stöðum á landsbyggðinni sem hafa verið í mikilli vörn, og veðja á að uppbyggingin geti átt sér stað á þessum stöðum, og skilað ávöxtun til framtíðar litið. Augljósast er að horfa til ferðaþjónustu í þessum efnum, en það má líka hugsa sér aðra atvinnuvegi, t.d. upplýsingatækni og hönnun. Nokkur góð dæmi eru um vel heppnaðan rekstur á þessum sviðum á litlum stöðum víða um land, meðal annars hið magnaða fyrirtæki Dressupgames á Ísafirði, sem Inga María Guðmundsdóttir stofnaði og rekur. Það hefur hagnast um meira en 100 milljónir á ári, mörg síðastliðin ár og verið á meðal hæstu greiðenda opinberra gjalda á Vestfjörðum. Það er lifandi dæmi um að svo til allt sé hægt. Stundum þarf ekki alltaf að horfa til opinberra starfa, þegar rætt er um byggðastefnu. Einkaframtakið er yfirleitt langasamlega áhrifamest, en til þess að það geti orðið að veruleika þurfa fjárfestar að horfa meira út fyrir höfuðborgarsvæðið og veðja á að góðir hlutir geti gerst.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.