Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Ummæli forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í Kryddsíldinni á gamlársdag, þess efnis að leki úr stjórnsýslunni á upplýsingum um persónulega hagi fólks hafi verið algengur í gegnum tíðina, hafa eðlilega vakið athygli. Sigmundur Davíð tjáði sig um þessi ummæli áBylgunni í gær, án þess að færa fram efnisleg rök fyrir máli sínu, nefna dæmi. Áður hafði Jóhannes Þór Skúlason, einn aðstoðarmanna forsætisráðherra, reynt að skýra málið í stuttu viðtali við mbl.is, en allt var það án nokkurra dæma um eitt eða neitt. Einungis ábendingar, sem virtust vera eftiráskýringar, til þess að lágmarka skaðann af þessum ummælum forsætirsráðherra. Það merkilega við þessi dæmalausu ummæli er að þau féllu í beinu samhengi við þann stóra pólitíska skandal, þegar persónuupplýsingum var lekið úr innanríkisráðuneytinu af aðstoðarmanni innanríkisráðherra, sem fagleg lögreglurannsókn staðfesti, og hann fékk síðan dóm fyrir að lokum, eftir játningu á lögbrotinu. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér vegna þessa, og öll kurl eru ekki komin til grafar enn í málinu þar sem vitað er að Hanna Birna hafði bein afskipti af rannsókn málsins, sem er dæmalaust og hugsanlega varðar það við lög um misbeitingu valds, ef rétt reynist. Allt gerðist þetta hjá ráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Enginn veit ennþá hvað Sigmundur Davíð er að tala um, og það er mikil þörf á því að hann skýri mál sitt frekar, í stað þess að skilja starfsfólk íslensku stjórnsýslunnar eftir í lausu lofti undir þeim ásökunum að vera að leka upplýsingum um persónulega hagi fólks í tíma og ótíma. Sigmundur Davíð mætti svo sannarlega vera auðmýkri gagnvart nákvæmlegu þessu atriði, það er leka á upplýsingum um persónulega hagi fólks, í ljósi hins fordæmalausa skandals sem hinn ólöglegi leki úr innanríkisráðuneytinu er fyrir ríkisstjórn hans.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.