Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Deilan milli stjórnvalda og lækna er hvergi nærri leyst og mikil hætta á ferðum, ef ekki næst lausn í deiluna. Hún snýst um kaup og kjör, en líka framtíðarsýn og metnað fyrir hönd heilbrigðiskerfisins. Hvernig á það að þróast og hvernig er hægt að skapa aðstöðu hér á landi sem viðheldur og eflir sérfræðiþekkingu? Ein hugmynd hefur ekki mikið verið rædd, sem bréfritari hefur stundum fært hugann að. Það er að búa til hvata í námslánakerfinu sem getur unnið gegn því að læknar fari úr landi og komi aldrei aftur. Til dæmis að hluti námslánaskuldar falli niður, læri fólk til sérfræðilæknis, ef það kemur heim til vinnu. Þetta eru vissulega einungis óútfærðar hugmyndir, en þó má ekki útiloka að breytingar á námslánakerfinu geti verið lykillinn í því að vinna gegn spekileka í stéttum þar sem alþjóðleg þekking er fyrir hendi. Gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum er þannig, að launahækkanir um einhverjar prósentur breytir ekki miklu hvað varðar launin. En ef það er gerð kerfisbreyting, með réttum hvötum, þá getur það meira gagn gert til lengdar. Þessari pælingu er hér með komið á framfæri...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.