Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fjöldamorðin í París, þar sem sautján einstaklingar létu lífið, hafa dregið dilk á eftir sér og sett kastljósið á hryðjuverkasamtök og ógnina sem af þeim stafar. Aðgerðir víða í Evrópu, meðal annars í Belgíu, sýna enn fremur að stjórnvöld víða og alþjóðasamfélagið í gegnum starf alþjóðastofnana tekur ógnina alvarlega og bregst við af hörku. Samhliða atburðum sem þessum sprettur jafnan upp umræða um trúarbrögð, minnihlutahópa og menningarárekstra.
Múslimar eru oft andlag í þessari umræðu. Þetta hefur gerst hér á landi að undanförnu, alveg eins og víða annars staðar í heiminum. Það sem mestu skiptir í þessari umræðu, að mati bréfritara, er að einangra glæpamennina og morðingjana algjörlega frá umræðunni um trúarbrögðin. Það þarf að gera í allri umræðu, og ættu fjölmiðlar sérstaklega að hafa þetta í huga. Mennirnir sem skutu blaðamenn Charlie Hebdo voru ekki sendiboðar trúarbragða eða hugmyndafræði, heldur stigu þeir með afgerandi hætti yfir línu réttarríkisins og gerðust sekir um hrikalegan siðlausan verknað samkvæmt okkar gildum og lögum. Þeir voru fjöldamorðingjar, studdir áfram af fólki sem heldur úti skipulagðri glæpastarfsemi. Ekki síst af þessum sökum, þá ættu þingmenn að tala varlega og færa umræðuna hér á landi, sem á rætur að rekja til hrikalegra glæpa úr í heimi, ekki beint inn á borð trúarbragðanna. Þar á hún ekki heima. En hinir siðlausu glæpamenn, sem halda úti skipulagðri glæpastarfsemi undir fölsku flaggi trúarbragðanna, vilja einmitt að umræðan sé færð þangað. Það er algjör óþarfi að gera þeim þann greiða.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.