Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Læknar standa í harðri kjarabaráttu. Það er ekki gott að segja hvort það miðar eitthvað áfram í kjaraviðræðum við stjórnvöld, en oft er það svo að um leið og einhver lausnafarvegur er myndaður, þá kemur lausnin nokkuð fljótt. Það verður að segjast að stjórnvöld eru ekki í sérstakri samningsaðstöðu. Á sama tíma og læknar eru í verkfalli, með tilheyrandi alvarlegri þjónustuskerðingu við veikt fólk á öllum aldri, þá standa stjórnvöld að því að gefa tugi milljarða úr ríkissjóði til fólks sem er með verðtryggð húsnæðislán í eigin nafni og á eigin ábyrgð. Skilaboðin til lækna eru þá væntanlega þessi; sjáið, það er nóg til í ríkissjóði, við erum að gefa fólki úr honum, jafnvel fólki sem þarf ekki á því að halda að fá peninga! Það verður áhugavert að sjá hvernig stjórnvöld munu leysa úr þessari stöðu, þannig að þau standi keik og ósködduð eftir pólitískt.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.