Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Það er mikið rætt um bága stöðu ríkissjóðs og leiðir sem hægt er að fara til þess að styrkja stöðu heilbrigðiskerfisins. Ritstjórn Kjarnans lagði við hlustir á dögunum þegar einn sérfræðingur á fjármálamarkaði sagði alltof lítið vera rætt um það, að lækka eigið fé í Landsbankanum skipulega. Taka einfaldlega meira fé af því mikla eigið fé sem þar væri og fjármagna ýmsar nauðsynlegar aðgerðir með því. Eiginfjárhlutfallið er nú um 27 prósent, sem er verulega hátt á alla hefðbundna mælikvarða þegar kemur að bankastarfsemi, og eigið féð tæplega 240 milljarðar króna. Með því að lækka hlutfallið í 18 til 20 prósent, og taka meira fé úr bankanum með arðgreiðslum en hefur verið gert, þá gæti það hjálpað ríkinu mikið. Það kann að vera að einhverjum finnist þetta langsótt en sá sem nefndi þetta var alveg harður á því að þetta væri skynsamlegast af öllu, og í þessu fælist ekki mikil áhætta heldur. Þetta væri hugsanlega skynsamlegra en að selja hlut í bankanum eins og nefnt hefur verið, en ríkið á nánast allt hlutaféð í bankanum. Það sakar ekki að pæla í þessu.
Hægt er að skrá sig á póstlista Kjarnans hér.