Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Mikil tækifæri felast í sífellt meiri áhrifum internetsins á líf okkar, í gegnum síma og samfélagsmiðla ekki síst. Michael Joseph Gross, blaðamaður, skrifaði afar áhugaverða grein um internetið í hið metnaðarfulla tímarit Vanity Fair fyrir um tveimur og hálfu ári síðan, þar sem þessir merkilegu stafrænu tímar eru nokkuð vel greindir. Yfirskriftin, World War 3.0, segir sína sögu um hversu stórt mál þetta er. Ýmsar hættur eru fyrir hendi, sem geta leitt til stórra vandamála. En tækifærin, ekki síst fyrir smærri samfélög, eru mikil. Staðan á Íslandi, þegar kemur að internetinu, er um það bil svona: Næstum allir eru með gott aðgengi að netinu og næstum allir með góðar tölvur og síma. Þá er tengikerfið í byggð með þeim betri í heiminum. Stjórnsýslan íslenska gerir ekki ráð fyrir þessum veruleika nema að litlu leyti. Full ástæða er til þess að gjörbylta stjórnsýslunni og laga hana mun hraðar að nýjum veruleika. Miklir peningar ættu að geta sparast með aukinni sjálfvirkni og aðgengi að upplýsingum ætti einnig að verða betra, og styrkja ákvörðunatöku, bæði almennings og stjórnmálamanna. Reynsla Breta af Gov.Uk verkefninu sýnir að það er vel hægt að nýta netið betur til þess að miðla upplýsingum til almennings, styrkja opinbera þjónustu og spara pening.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.