Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú er farin af stað uppstokkun á eignarhaldi greiðslukortafyrirtækjanna, Valitors, Borgunar og Kreditkorts. Ef allt gengur eftir eins og nú er útlit fyrir, þá mun Arion banki eiga Valitor, Íslandsbanki á 62 prósent í Borgun á móti Eignarhaldsfélagi Borgunar slf. og síðan á Íslandsbanki Kreditkort. Það sem hér vekur nokkra athygli eign Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf, sem hópur fjárfesta á, en Stálskip er þeirra stærsti einstaki eigandi stærsta flokks hlutabréfa félagsins, B flokks, með 29,43 prósent hlut. Arion banki og Íslandsbanki eru annars allsráðandi. Nákvæma útlistun á eigendahópnum má sjá í fréttaskýringu Kjarnans. Hvað býr að baki þessum viðskiptum Eignarhaldsfélags Borgunar slf.? Af hverju er þessi útvaldi hópur fjárfesta að kaupa þennan hlut, og á 31,2 prósent eignarhlut á móti Íslandsbanka? Er Íslandsbanki nokkuð á bak við þennan hóp? Varla getur það verið, því annars yrði stefnubreyting bankans frá því á dögunum, þegar öllum viðskiptum bankans við VISA og Valitor var hætt, og þau flutt til Borgunar, gerð tortryggileg. Og færu augljóslega gegn samkeppnissjónarmiðunum sem hafa verið tilgreind sem ástæða þessara viðskipta. Það verður forvitnilegt að fylgjast með uppstokkuninni og hvernig úr henni spilast á næstu misserum...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.