Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Hvað er að gerast í íslenska hagkerfinu? Það er stórt spurt að þessu sinni, en ekki að ástæðulausu. Hagstofa Íslands spáði 2,7 prósenta hagvexti 14. nóvember en birti síðan frumgögn um hagvöxt þremur vikum síðar, sem sýndu að hagvöxturinn á fyrstu níu mánuðum ársins hefði verið 0,5 prósent og neikvæður um 0,2 prósent á þriðja ársfjórðungi. Þetta er órafjarri spám um þrjú prósent hagvöxt á árinu, eins og margir spáðu, meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Verðbólga mælist nú eitt prósent, og voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 prósentustig í morgun. Stýrivextir eru 5,25 prósent. Margt bendir til þess að verðhjöðnun geti komið upp á næstunni, sem er nú næstum óhugsandi staða hér á landi, þar sem verðbólgudraugurinn hefur lifað í vellystingum. Olíuverð hefur fallið um 40 prósent á skömmum tíma, og slíkar sveiflur á þessari grunnhrávöru geta vel leitt til lækkunar á verðlagi á tímabilinu á eftir. Til viðbótar koma svo janúarútsölurnar, en þær hafa yfirleitt alltaf komið til verðlækkunar í tölum Hagstofu Íslands og leitt til minni verðbólgu, þó þær vegi nú ekki mjög þungt. Svo ein breyta, sem almenningur tengir sig ágætlega við, sé nefnd. Þegar þessi mynd er skoðuð út frá þessari stöðu þá er erfitt að svara því hvað sé eiginlega að gerast í íslenska hagkerfinu...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.