Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Það getur stundum verið hjálplegt að taka sér heimspekilega stöðu í framtíðinni. Hvernig verður staðan eftir 15 eða 20 ár? Hvernig verður samtími okkar dæmdur þá? Þegar fangelsismál eru annars vegar, er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvernig sagan muni dæma okkar samtíma þegar kemur að yfirfullum fangelsum af fólki sem glímir við veikindi, svo sem fíknisjúkdóma og andlega kvilla ýmis konar, en fær ekki bót meina sinna. Viðurlög við lögbrotum eru sjálfsögð og eðlilegur hluti réttarríkisins. En það er umhugsunarefni hvort það geti verið, að stór hluti fanga eigi ekki heima í fangelsum eins og þau eru sett upp í dag, eins og rannsóknir hafa raunar sýnt. Það er að nauðsynlegt sé að skipuleggja fangelsi þannig að veikt fólk sé meðhöndlað eins og það sé veikt, en ekki bara vont fólk. Þó það sé vissulega líka til, að því marki að sú skilgreining haldi vatni. Sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér hvað þessi mál varðar. Það er ekki víst að dómur sögunnar verði stöðu mála eins og þau eru núna í hag.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.