Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Það er ekki hægt annað en að vona það besta, þegar kemur að læknadeilunni. Vonandi fer hún að leysast. Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar Háskóla Íslands og prófessor í lyfja- og eiturefnafræði, skrifaði áhugaverða og skýra grein á vef Kjarnans á dögunum. Þar veltir hann læknadeilunni fyrir sér í hinu stóra samhengi hlutanna, efnahagslegum aðstæðum og innviðum samfélagsins. Læknadeilan er sannarlega einn angi af því, að samkeppnishæfni Íslands er í uppnámi vegna einangrunar og láglaunaveruleika. Það mun ekki gerast smátt og smátt, að innviðir samfélagsins veikist, heldur mun það gerast hratt og örugglega, ef ekkert breytist. Þetta er þegar byrjað að gerast, eins og læknadeilan er skýrt dæmi um. Mikill landflótti úr verkfræðistétt er annað dæmi. Það er ekki ósanngjörn krafa að gera til stjórnmálamanna, að þeir leggi fram skýra framtíðarsýn um það hvernig Ísland getur brotist úr láglaunaveruleikanum og viðhaldið samkeppnishæfni til framtíðar. Svör óskast...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.