Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Stjórnvöld eru að beita sér fyrir því þessa dagana, að opinber störf flytjist í meira mæli á landsbyggðina. Svo virðist sem margt komi til greina í þeim efnum. Flutningurinn á Fiskistofu til Akureyrar er enn fyrirhugaður, þó allir starfsmenn Fiskistofu séu á móti því og engin málefnaleg rök séu fyrir færslunni á starfseminni. Nema að pólitískir hreppaflutningar teljist vera málefnaleg rök. Byggðastefna er algengt orð í orðræðu um þess málefni, og oft talað um skort á henni. Bréfritari er á því að mikil tækifæri séu fyrir hendi á landsbyggðinni, og að stjórnmálamenn þurfi að nota aðrar aðferðir til þess að efla landsbyggðina en flytja opinberar stofnanir í heilu lagi þangað. Besta leiðin, að mati bréfritara, er að efla samgöngur og þar með innviði fyrir uppbyggingu, meðal annars þegar kemur að ferðaþjónustu. En það mætti líka hugsa sér að skattalækkanir á landsbyggðinni, eins og tíðkast til dæmis í Norður-Noregi, geti ýtt undir atvinnusköpun og eflingu byggðar. Landsbyggðin er mikilvæg hagkerfinu, og oft mikil gjaldeyrissköpun sem fram fer þar á stórum og smáum vinnustöðum. Þá mætti efla með stuðningi í gegnum léttara regluverk, fremur en að flytja opinber störf út á landi í stórum stíl.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.