Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Sagt var frá því í gær að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefði ákveðið að veita Hvalasafninu á Húsavík viðurkenningu að tillögu Safnaráðs. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tilkynnti síðan um það á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins um síðastliðna helgi að steypireyðagrind, sem rak á land við Skaga árið 2010, muni fara til varðveislu í Hvalasafninu á Húsavík. Líklega mun þurfa að stækka og stórbæta aðstöðu safnsins. Uppbygging hvalaskoðunar og hvalasafnsins á Húsavík má rekja um tuttugu ár aftur í tímann þegar einstaklingar og einkafyrirtæki fóru að bjóða erlendum ferðamönnum upp á að skoða hvali á Skjálfanda við Húsavík. Á tuttugu árum hefur uppbyggingin verið mögnuð og metnaðarfull. Á hverju sumri koma á bilinu 60 til 70 þúsund erlendir ferðamenn til Húsavíkur til þess að skoða hvali. Og nú brátt til þess að skoða grind stærsta dýrs jarðarinnar. Þetta dæmi sýnir ágætlega hvað vel heppnað einkaframtak getur verið efnahagslega áhrifamikið.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.