Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, skrifaði grein á vef Kjarnans í gær þar sem hann lítur um öxl, og leggur mat á stöðu mála. Þetta var að mörgu leyti ágæt grein hjá Sigurði Inga, hófstillt og hans persónulega mat komst ágætlega til skila. Síðan getur fólk deilt um það. Bréfritari er sammála Sigurði Inga um það, að mörg jákvæð teikn eru á lofti, en vill meina að þau séu ekki stjórnmálamönnum að þakka nema að litlu leyti, heldur helst litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa verið að rétta úr kútnum eftir endurskipulagningu og erfiðleika. Nokkur atriði vöktu bréfritara til umhugsunar sem snéru meðal annars að hinni svokölluðu leiðréttingu annars vegar og síðan tugmilljarða vaxtagreiðslum ríkissjóðs hins vegar, sem Sigurður Ingi kallar blóðpeninga.
Sigurður Ingi er í hópi þeirra sem hefur hundsað tölulegar staðreyndir um áhrif hinnar svokölluðu leiðréttingar, og hvernig hún fer með 80 milljarða úr ríkissjóði, sem annars hefðu getað farið í lækka skuldir ríkissjóðs og minnkað „blóðpeningagreiðslurnar“. Oddgeir Ottesen, hagfræðidoktor og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, er búinn að tæta aðgerðina niður með tölulegum staðreyndum og hagfræðilegum greiningum sem enginn hefur getað hrakið, þar sem útkoman er sú að hin svokallaða leiðrétting á verðtryggðum húsnæðisskuldum, sem er það alls ekki, sé glórulaus aðgerð, og að í henni felist kærulaus og óábyrgð meðferð á fé úr ríkissjóði. Oddgeir er enginn Samfylkingarmaður, eins og bloggher Framsóknar segir alltaf strax um þá sem reyna að ræða málefnalega um þetta. Hann er það alls ekki. Hann er rödd úr Sjálfstæðisflokknum, sem beygði sig fyrir þessari umfangsmestu þjóðnýtingu á einkaskuldum sem dæmi eru um í Íslandssögunni á síðari tímum. Það er hins vegar hárrétt hjá Sigurði Inga að taka hraustlega til orða og kalla tugmilljarða vaxtagreiðslur ríkissjóðs blóðpeninga. Einmitt þess vegna er það oft erfitt fyrir stjórnmálamenn að horfast í augu við það, að það þarf að greiða skuldirnar niður, þó það sé kannski ekki til skammtímavinsælda fallið eins og hin svokallaða leiðrétting.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.