Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Öryrkjabandalagið (ÖBÍ) gerði mikil mistök þegar það ákvað að taka Pétur H. Blöndal, þingmann Sjálfstæðisflokksins, út sérstaklega í auglýsingaherferð. Að mati bréfritara á Pétur ekki skilið að vera harðlega gagnrýndur af Öryrkjabandalaginu. Sérstaklega ef horft til stærsta máls ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili, sem hún kýs að kalla leiðréttinguna, en það er aðgerð sem miðar að því lækka höfuðstól verðtryggðra skulda 28 prósent heimila með um 80 milljarða framlagi úr ríkissjóði, óháð því hvort fólkið sem stofnaði til skuldanna sjálft á eigin ábyrgð, þarf á framlaginu að halda eða ekki. Í þessum aðgerðum er öryrkjum, sem margir hverjir búa í leiguhúsnæði og reiða sig á velferðakerfi ríkisins, gjörsamlega haldið úti í kuldanum og þeim raunar sýnd dæmalaus lítilsvirðing, þar sem íslenskir milljónamæringar fá tugi milljarða úr ríkissjóði á meðan öryrkjar fá ekkert. Pétur H. Blöndal barðist gegn þessum ótrúlegu aðgerðum og tók þannig stöðu með öryrkjum í reynd. Öryrkjabandalagið er í fullum rétti að gagnrýna Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, sem hefur stundum talað um mikilvægi ráðdeildar í ríkisrekstri, en stendur svo að því með félögum sínum að senda öryrkjum kaldar kveðjur með hinni svokölluðu leiðréttingu. En Pétur á þetta ekki skilið.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.