Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Málefni sem snúa að uppstokkun á eignarhaldi greiðslukorta hafa verið fréttaefni á vef Kjarnans að undanförnu. Eitt af því sem ekki hefur hefur verið svarað nægilega skýrlega er hvar rannsókn Samkeppniseftirlitsins á starfsemi bankanna og aðkomu þeirra að greiðslukortafyrirtækjunum stendur núna. Í ársskýrslu Landsbankans frá árinu 2013, kemur þetta fram: „Í mars 2013 tilkynnti Samkeppniseftirlitið bankanum bráðabirgðamat og niðurstöður sínar í tveimur málum. Fyrra málið varðar ívilnandi skilmála sem Landsbanki Íslands hf. (nú LBI hf.) bauð á árunum 2004-2010 og sem bankinn bauð síðar viðskiptavinum í einstaklingsviðskiptum, sér í lagi í tengslum við húsnæðislán. Landsbankinn skilaði svari sínu í júní 2013 og hafnaði öllum ásökunum um brot á samkeppnisreglum. Bankinn hefur ekki upplýsingar um hvenær Samkeppniseftirlitið muni grípa til frekari aðgerða í málinu en hefur lýst vilja sínum til að ganga til viðræðna. Seinna málið snýst aðallega um meinta aðild Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.) og síðar bankans um það hvernig ákvarðanir voru teknar um milligjöld greiðslukorta. Bankinn skilaði svari sínu í júní 2013 og hafnaði öllum ásökunum um brot á samkeppnisreglum. Bankinn og Samkeppniseftirlitið hafa fundað nokkrum sinnum til að reyna að leita leiða til að útkljá málið.“ Samkvæmt svörum frá bankanum þá á þetta allt við ennþá, ekkert hefur breyst. Getur verið að þetta sé undirliggjandi ástæða þess að farið er hratt í þessa eignasölu á hlutnum í Borgun, til valinna fjárfesta, og nú sé unnið að sölu á 38 prósent hlut í Valitor? Það á væntanlega eftir að koma í ljós. Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um þetta frá Samkeppniseftirlitinu og svarið þaðan var þetta. „Ég get því miður ekki tjáð mig um þetta á þessu stigi,“ sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri, í samtali við Kjarnann. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.