Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Formaður félagsins Einstök börn, Guðmundur Björgvin Gylfason, lýsti í samtali við RÚV miklum áhyggjum vegna þess að þjónusta frá heilbrigðiskerfinu við langveika og þá sem þurfa mikla aðstoð hefur versnað á undanförnum árum, vegna niðurskurðar meðal annars. Þá er fyrirsjáanlegt að mikill vandi skapist vegna þess að það vantar sérfræðimenntaða lækna. Þá vantar fjármagn, 1,5 milljarða króna, til þess að geta sett hlutina í ásættanlegt horf. Þessi staða er grafalvarleg, og eitthvað sem ritstjórn Kjarnans hefur heyrt töluvert af undanfarin misseri. Vonandi forgangsraða stjórnmálamenn rétt við fjárlögin, og setja fé í þennan málaflokk sem hér á undan er lýst, fremur en gæluverkefni. En hvað varðar læknanna og skort á þeim, þá er ekki svo auðvelt að sjá hvað er hægt að gera. Eitt atriði mætti skoða; það er að nýta námslánakerfið til þess að ýta undir komu lækna til Íslands. Einfaldlega að sérfræðimenntaðir læknar fái verulegan styrk frá ríkinu, í formi niðurfelldra lána eða vaxta af þeim t.d., fyrir að koma heim. Kostnaðurinn af því að gera ekkert er gríðarlegur, en þetta gæti mögulega unnið gegn enn meiri erfiðleikum.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.