Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Læknar eru enn í verkfalli, tónlistarkennarar líka, háskólaprófessorar eru á leið í verkfall að óbreyttu og framundan eru erfiðar kjarasamningsviðræður. Einhverra hluta vegna er Samfylkingin, sem á að heita flokkur jafnaðarmennsku og félagshyggju, með sterk tengsl við verkalýðsforystuna og hagsmunasamtök opinberra starfsmanna, gjörsamlega lömuð í þessum aðstæðum.
Í það minnsta er það mat bréfritara að Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, hafi lítið þurft að hafa fyrir því að tjá sig um þessi mál út á við og hafa stjórn á pólitískri atburðarás þess. Jafnvel þó fjölmenn mótmæli eigi sér stað, þar sem stöðu mála er mótmælt kröftuglega, þá er stjórnarandstaðan ekki með neinn byr í seglin.
Samfylkingin er þar sérstaklega slöpp. Hún er alltaf að eyða púðri í Evrópusambandið þrátt fyrir að löngu sé ljóst að það er ekki pólitískur möguleiki að Ísland verði hluti af því í nánustu framtíð. Sá möguleiki er órafjarri (og vel hugsanlegt að það hafi verið mikill pólitískur afleikur hjá Samfylkingunni að beita sér fyrir inngöngu og sækja um aðild, með veikan stuðning. Það hefur kannski grafið enn meira undan möguleikanum á því að aðildarviðræður verði einhvern tímann lykta leiddar). Af þeim sökum ætti flokkurinn að koma sér fyrir meðal þeirra stétta sem eru að berjast fyrir betri kjörum og aðstöðu, jafnvel þó að það sé mat forystu flokksins að langtímahagsmunir heildarinnar séu best tryggðir með ESB aðild. En það gerir hann ekki, nema að veikum mætti. Samfylkingin hefur yfirbragð elítu-flokks með litla tengingu við fólkið á gólfinu. Allt hjálpar þetta ríkisstjórninni að koma sínum stefnumálum áfram. Hin pólitíska fyrirstaða er lítil sem engin. Einhverra hluta vegna...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.