Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Veiting Seðlabanka Íslands, í samráði við efnahags- og fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar, á undanþágu handa LBI hf. vegna greiðslu til forgangskröfuhafa upp á 400 milljarða, er áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er þetta mikilvægt skref í átt að því að rýmka fjármagnshöftin eða afnema þau með tímanum. Í öðru lagi er þetta afar mikilvægt fyrir Landsbankann og leysir fyrirsjáanlegan vanda hans, þar sem samhliða þessu er verið að lengja í skuld bankans við LBI og þar með draga úr áhættu fyrir þjóðarbúið. Í þriðja lagi er þetta einnig mikilvægt fyrir Seðlabanka Íslands og sjálfstæði bankans undir stjórn Más Guðmundssonar. Það er vitað mál að ýmislegt gekk á bak við tjöldin, og hart var deilt um hvort yfir höfuð ætti að heimila greiðslu til forgangskröfuhafa og lengja í skuldinni, eins og fram hefur komið í fréttum, ekki síst í ágætum fréttaskýringum Harðar Ægissonar í Morgunblaðinu. Að lokum tókst Seðlabankanum og efnahags- og fjármálaráðuneytinu að loka málinu. Það er ekki endilega víst að allir hafi verið sáttir með þetta, t.d. ekki allir Framsóknarmenn og ýmsir fylgisveinar þeirra í fjármálakerfinu.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.