Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Tveir forystumenn íslenskra stjórnmála fluttu ræður fyrir bakland sitt um helgina. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði flokksráðið í Valhöll og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, talaði til flokksstjórnarinnar. Staða þeirra tveggja er ólík. Bjarni er líklega áhrifamesti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir, með mikilvægustu pólitísku spilin á hendi, á meðan Árni Páll leiðir veikburða Samfylkingu á Alþingi. Bjarni virðist hafa mikinn og víðtækan stuðning í Sjálfstæðisflokknum þessi misserin. Það er enginn sem ógnar stöðu hans, eftir að lekamálið veikti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur umtalsvert. Hún var í sterkari stöðu fyrir það mál. Það er lítil samkeppni fyrir Bjarna, ef svo má að orði komast. Síðan hefur Bjarni líka hagtölurnar úr haftahagkerfinu með sér í liði. Flestir vísar eru góðir, en það er einn varnagli; fjármagnshöftin. Bjarni talaði mjög skýrt um mikilvægi þess að afnema þau, sagði þau andstöðu frjáls markaðasbúskapar og að tíðinda væri að vænta. Árni Páll fann stöðunni hins vegar allt til forráttu. Staðan væri óboðleg, ríkisstjórnin væri bara fyrir ríka fólkið og að vonleysi ríkti. Ekki fyrir svo löngu síðan voru þessir flokkar í ólíkri stöðu, en málflutningurinn var svipaður. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, talaði fyrir því að hagtölurnar væru góðar (og þuldi þær iðulega upp í löngu máli!) á meðan Bjarni, þá í stjórnarandstöðu, sagði stöðuna afleita. Það er ekki svo gott að segja hvernig þetta er í reynd núna, þó flest bendi til þess að hagkerfið sé á réttri leið. Stjórnmálamennirnir eru ekki alltaf með puttann á púlsinum þegar kemur að stöðumatinu. Því þeir reyna alltaf að draga upp mynd sem hentar til atkvæðaveiða...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.