Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingkona Framsóknarflokksins, lét hafa eftir sér á dögunum að það væri auðvitað „vel í lagt“ að láta Landspítalann hafa einn milljarð til viðbótar við það sem þegar hafði verið áformað í fjárlagafrumvarpinu. Óháð því, að þetta viðbótarframlag er alls ekki nóg að mati Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans, þá eru þetta athyglisverð orð að mörgu leyti hjá Vigdísi. Hún fór mikinn síðastliðið sumar þegar hún tjáði sig um hagræðingarhugmyndir svonefnds hagræðingarhóps stjórnvalda, þar sem voru auk hennar Ásmundur Einar Daðason Framsóknarflokki, Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokki og Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki. Þar var leiðarstefið, út á við, að það þyrfti að fara miklu betur með takmarkað fé ríkissjóðs, stjórnvöld gætu ekki leyft sér hvað sem er. Þess vegna mætti kannski segja að það sé frekar „vel í lagt“ að eyða tæplega 80 milljörðum úr ríkissjóði í að leggja inn á einkaréttarlegar og persónulegar fasteignaskuldir sumra landsmanna. Dr. Oddgeir Ottesen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem tætti niður hina svokölluðu leiðréttingu í grein í Morgunblaðinu og lýsti henni sem tómri dellu, gæti kannski hitt Vigdísi á fundi og bent henni á að moksturinn á tæplega 80 milljörðum úr ríkissjóði væri svona heldur „vel í lagt“...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.