Kosningar skipta sköpum. Þær eru stórkostlegt fyrirbæri, lýðræðið í sinni tærustu mynd. Í gegnum söguna hafa kosningar líka leitt af sér stöðu sem síðan verður að jarðvegi fyrir öfgar, með skelfilegum afleiðingum. En oft hafa þær líka verið lykillinn að stórkostlegum mannréttindaumbótum og framförum. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur fjallar tíu mikilvægar kosningar, sem svo sannarlega breyttu heiminum og gangi sögunnar.
1. Þýsku þingkosningarnar mars 1933
Mikil stjórnarkreppa var í Þýskalandi í upphafi fjórða áratugarins. Það var vegna þess að tveir andlýðræðisflokkar, Nasistaflokkurinn (NSDAP) og Kommúnistaflokkurinn (KPD), voru með meirihluta á þingi. Kosningarnar í mars 1933 voru haldnar nokkrum dögum eftir þinghúsbrunann mikla og nasistar græddu mikið á því. Þeir bættu við sig 10% og voru með samtals 44% og orðnir langstærsti flokkurinn. Með hjálp annarra flokka náði Hitler að knýja fram einræði. Hann bannaði aðra stjórnmálaflokka og engar fleiri lýðræðislegar kosningar voru haldnar í valdatíð hans. Allir þekkja framhaldið.
2. Forsetakosningar í Bandaríkjunum 1860
Þrælahald hafði verið mikið þrætuepli í amerískum stjórnmálum í langan tíma fram að þessu og Repúblíkanaflokkurinn beinlínis stofnaður til höfuðs þrælahaldi. Demókrataflokkurinn klofnaði og samtals voru fjórir frambjóðendur til kosninganna. Repúblíkaninn Abraham Lincoln sigraði með tæplega 40% atkvæða en 60% kjörmanna. Strax eftir kosningarnar hófu suðurríkin, eitt af öðru, að segja sig úr lögum við Bandaríkin og borgarastyrjöld hófst í kjölfarið. Eftir fjögur ár af geysilegu blóðbaði sameinuðust Bandaríkin aftur og þrælahald var úr sögunni.
3. Þingkosningar í Suður Afríku 1994
Kosningarnar mörkuðu endalok hins mikla niðurlægingarskeiðs sem Apartheid var. Loksins gátu allir Suður Afríkumenn kosið til löggjafarþings óháð kynþætti. Nelson Mandela hafði verið látinn laus úr fangelsi fjórum árum áður og hann leiddi African National Congress (ANC) til yfirburðasigurs með tæplega 63% fylgi. Mandela varð forseti og ANC hefur ekki sleppt stjórnartaumunum síðan. National Party (NP), sem hafði stýrt landinu í krafti apartheid í áratugi fékk aðeins 20%. Kjördagurinn 27. apríl er þjóðhátíðardagur í Suður Afríku, kallaður Frelsisdagurinn.
4. Þingkosningar í Nýja Sjálandi 1893
Frjálslyndir unnu kosningarnar með tæplega 60% af greiddum atkvæðum en það skiptir í sjálfu sér engu máli. Það sem skiptir máli er að þetta var í fyrsta sinn sem konur fengu að kjósa til þjóðþings sjálfsstæðs ríkis. Einungis nokkrum vikum áður höfðu nýsjálenskar konur fengið kosningarétt. Súfragettan Kate Sheppard var einn helsti hvatamaðurinn að þessu og Nýja Sjáland komst rækilega á kortið í kvenréttindabaráttunni. Ástralía fylgdi þeim 9 árum síðar en Evrópa og Bandaríkin tóku ekki við sér fyrr en rúmlega 20 árum síðar.
Auglýsing
5. Kosningar til Evrópuþingsins 1979
Evrópusamstarfið hafði verið í þróun frá því snemma á sjötta áratugnum og þáttökuríki Evrópubandalagsins höfðu sent fulltrúa af þjóðþingum til þess að stýra því. Árið 1979 var Evrópuþingið sett upp og sérstakir fulltrúar kosnir samtímis í aðildarlöndunum. Þetta var fyrsta alþjóðakosningin, haldin í 9 löndum alls og löggjafarvald sambandsins var stórbætt. Ekki var eiginleg stjórn mynduð en sósíaldemókratar urðu stærsti flokkurinn á þinginu. Grunnurinn að þeim flokkabandalögum sem ennþá eru til var lagður í þessum fyrstu kosningum.
6. Þing og héraðskosningar í Breska Indlandi 1945-1946
Undir lok seinni heimstyrjaldar var ljóst að Bretar voru að missa tökin á Indlandi. Indian National Congress (INC), flokkur Mahatma Gandhi, vann yfirburðasigur ef litið er til þingsæta með um 60%. En raunverulegir sigurverarar kosninganna voru Muhammad Ali Jinnah og Muslim League (AIML) sem unnu afgerandi sigur í þeim héruðum þar sem múslimar voru í meirihluta. Krafa þeirra um sjálfstætt Pakistan var því meitluð í stein þrátt fyrir tilraunir INC til að halda landinu saman. Indland og Pakistan fengu sjálfstæði í sitt hvoru lagi árið 1947 og hafa samskipti ríkjanna tveggja verið erfið alla tíð síðan.
7. Þjóðaratkvæðagreiðslur í Austur-Evrópu 1990-1992
Þegar Sovétríkin og Júgóslavía liðuðust í sundur í upphafi tíunda áratugsins urðu til fjölmörg ný ríki. Flest þessara ríkja héldu þjóðaratkvæðagreiðslur til þess að veita tilveru sinni lögmæti. Alls staðar þar sem slíkar atkvæðagreiðslur voru haldnar var sjálfstæði samþykkt með yfirburðum (allt að 99%) nema í Svartfjallalandi. Rússneskir og serbneskir minnihlutar ákváðu þó yfirleitt að sniðganga þessar atkvæðagreiðslur. Þeir héldu jafnvel sínar eigin atkvæðagreiðslur sem ekki voru viðurkenndar af nýju ríkjunum, t.d. í Suður Ossetíu og Transnistríu. Eftir atkvæðagreiðsluna í Bosníu 1992 braust út hið skelfilega stríð þar í landi með tilheyrandi þjóðernishreinsunum.
8. Forsetakosningar í Bandaríkjunum 2000
Kosingarnar 2000 voru þær jöfnustu í Bandaríkjunum síðan Kennedy vann árið 1960 og í fyrsta sinn síðan á 19. öld sem forseti var kosinn með minnihluta atkvæða. Demókratinn Al Gore fékk um hálfri milljón fleiri atkvæði en Repúblíkaninn George W. Bush. Það merkilegasta við þessar kosningar var óvissan, kjördagur kom og fór og enginn vissi hver var forseti Bandaríkjanna. Fjölmiðlar brugðust algerlega þegar þeir lýstu yfir sigurvegara í ákveðnum ríkjum án þess að hafa nægar upplýsingar. Þetta var gríðarlegt áfall fyrir ríki sem skilgreinir sig sem helsta vígi lýðræðis í heiminum. Dómstólar þurftu að skera á hnútinn í Flórída en öllum var ljóst að pottur var brotinn í kosningaframkvæmdinni þar. Kosningin var talin eitt allsherjar klúður og mörg fylki tóku kosningakerfi sín til endurskoðunar.
9. Þingkosningar í Ítalíu 1994
Árið 1994 ýttu ítalskir kjósendur á reset-hnappinn. Gríðarleg spillingarmál og tengsl stjórnmálamanna við mafíuna komu upp á yfirborðið og ákveðið var í þjóðaratkvæðagreiðslu að breyta kosningakerfinu. Kosningaúrslitin sjálf voru hreint ótrúleg. Hinn stóri flokkur Kristilegra demókrata missti 177 af 206 þingsætum sínum. Sósíalistaflokkurinn missti 76 af 92 sætum sínum. Fleiri rótgrónir flokkar á hægri og vinstri vængnum misstu nánast allt sitt. Hinn nýji flokkur milljarðarmæringsins og fjölmiðlamógúlsins Silvio Berlusconi, Forza Italia, var sigurvegari kosninganna og hefur verið leiðandi afl í ítölskum stjórnmálum æ síðan. Ekki er þó hægt að segja að ítölsk stjórnmál hafi hreinsað sig af spillingu og skandölum við þessa breytingu.
10. Kosningar í Írlandi til breska þingsins 1918
Gríðarleg vatnaskil urðu í kosningunum. Hófsömu þjóðernissinnarnir IPP voru gersigraðir af hinum róttæku Sinn Féin. Írskir Sambandssinnar unnu stóran sigur í nyrstu sýslunum. Sinn Féin liðar, sem margir höfðu tekið þátt í uppreisninni tveimur árum áður og voru jafnvel í fangelsi, neituðu að mæta til London og settu í staðinn upp eigið þing í Dublin. Þetta þing lýsti yfir sjálfstæði lýðveldisins Írlands og gerði IRA að opinberum her lýðveldisins. Stríð við Bretland braust út í kjölfarið. Stríðinu lauk með því að Írland fékk fullt sjálfstæði árið 1922 en nyrstu sýslurnar sátu eftir í Stóra-Bretlandi.