Kórónuveiran hefur heldur betur valdið usla í samfélaginu með tilheyrandi aðlögun og breytingum á hversdagslífi fólks. Faðmlögum og handabandi hefur nú verið skipt út fyrir sprittbrúsa og andlitsgrímur og óvíst hvort og hvaða breytingar eru komnar til að vera. En hvað getur hversdagsleg menning sagt okkur um samfélagið?
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Valdimar Tr. Hafstein prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands um hversdagslíf á tímum heimsfaraldurs og sjónarhorn þjóðfræðinnar á þessar samfélagsbreytingar í sögulegu ljósi. Samtalið fer frá hrákadöllum og kossaflensi karlmanna að handabandinu, súrdeigsbakstri og samlífi manna og örvera.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um rannsóknir og miðlun í þjóðfræði. Sjónunum er beint að fólki og hvaða merkingu það leggur í siði og venjur, hluti og umhverfi. Umsjónarkonur eru Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.