Safnastarf er víða frjótt og blómlegt. Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum er engin undantekning frá því. Safnið stendur fyrir fjölbreyttri og áhugaverðri starfsemi en hefur í verkefnum sínum þurft að aðlaga sig að Covid-heimsfaraldri. Safnið hefur lagt mikla áherslu á þjónustu við nærsamfélagið og sérstaka rækt við yngri kynslóðina.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur safnstjóra Minjasafns Austurlands. Hún segir frá fjölbreyttri starfsemi safnsins og skemmtilegum verkefnum og sýningum. Talið berst m.a. að einkennisdýri Austurlands, hreindýrum, sem jafnan vekja mikla athygli hjá innlendum sem erlendum ferðamönnum. Þá segir Elsa Guðný frá námi sínu í þjóðfræði og hvernig það nýtist henni í starfi hennar í dag.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði og safnafræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.