Ef ég mundi taka saman allar minningar úr lífi mínu fyrir tvítugt myndu þær líklega telja 45 gloppóttar mínútur. Restin eru bara glefsur og andartök. Nærri öllum þeim tíma tileinkar heilinn á mér sumrinu 1993. Ég var 9 ára og bjó í blokk við Öldugranda líkt og ég hafði gert öll hin árin. Það var frábært að alast upp í nýbyggðu blokkarhverfi - haugur af börnum og vinir komu og fóru eftir því sem að foreldrar þeirra færðust upp eða niður í efnahagslegu íbúðafæðukeðjunni.
Ég er enginn eðlisfræðingur en ég held að þetta sumar hafi verið svona 12 ár að líða. Ég átti vini sem voru töffarar. Við slæptumst, því það er það sem börn gera. Við spiluðum Mortal Kombat II, horfðum á gríðarlega lélega VHS upptöku af Universal Soldier; ekki heima hjá mér því ég átti bara Betamax tæki og Three Amigos. Stundum hnupluðum við nammi úr Hagkaupum - og einu sinni pilsner sem ég var allt of lífhræddur til að drekka. Ég var ekki töffari. Sama hvað ég suðaði eignaðist ég aldrei Dickies buxur, heldur lét mér nægja rifflaðar brúnar flauelsbuxur og Fruit of the Loom peysu sem ég fékk í jólagjöf frá ömmu. Ég reyndi samt að vera með. Horfði á NBA fréttir með Einari Bollasyni, safnaði ótrúlegu magni af körfuboltamyndum sem ég keypti fyrir alla þá vasapeninga sem ég fékk og öllu því klinki sem ég stal af móður minni (fyrirgefðu mamma) - safnaði Upper Deck Jordan og Pippen. Hóf síendurtekinn feril af slæmum viðskiptahugmyndum þegar ég ákvað að byrja að safna myndum með eldri strák sem ég þekkti ekkert og endaði á því að missa alla Jordanana mína og fá í staðinn ótal myndir af Kurt Rambis og Chris Mullin.
Þetta sumar bauð mamma mér til Írlands. Hvernig hún fékk út að eyjan græna væri fyrirtaks sumarleyfisstaður fyrir unga móður og 9 ára barn verður að eilífu óleyst ráðgáta. Hvað sem því líður var ljóst eftir nokkrar Gelískar kastalaheimsóknir og gríðarlega langar rútuferðir yfir stórkostlegt flæmi af graslendi hafði ég upplifað næga menningu; ég vildi fjöldaframleidda ómenningu. Það var nefnilega bara ein kvikmynd sem ég vildi sjá þetta sumarið: Super Mario Bros. Þetta leiddi til heilbrigðrar rökræðu móður og barns þar sem móðir útskýrði að hún hefði ekki áhuga á því að horfa á Bob Hoskins niðurlægja sjálfan sig sem jaðar-rasísk tölvuleikjapersóna og barnið andmælti með því að öskra orðin "SUPER MARIO!" aftur og aftur. Á endanum var komist að samkomulagi um að fara í kvikmyndahús en að móðir mín fengi að velja myndina. Ég sat því nokkuð fúll í írsku kvikmyndahúsi að horfa á einhverja risaeðlumynd sem ég hafði aldrei heyrt um. Það voru kannski liðnar 10 mínútur af myndinni þegar ég var hugfanginn. Allt frá fyrsta andartakinu sem risaeðla birtist á tjaldið, yfir í siðlblinda lögfræðinginn sem grameðlan át á klósettinu - Jurassic Park var það eina sem ég gat hugsað um. Ég neyddi móður mína til þess að fara með mig í leikfangaverslun strax daginn eftir. Öll Jurassic Park leikföng voru uppseld nema hasarfígúra byggð á Dennis Nedry - bústna tölvuþrjótinum sem eyðilagði garðinn og dó bókstaflega úr heimsku. En mér var sama.
Eftir að til Íslands var komið var ég óseðjandi. Ég teiknaði risaeðlur öllum stundum, heimsótti bara vini sem áttu Jurassic Park dót; tók stundum Dennis með mér. Ég hætti að eyða peningum í körfuboltamyndir og eyddi þeim í staðinn í bíómiða. Aftur og aftur, kunni hvert einasta andartak utan bókar. Ég var búinn að sjá hana sjö sinnum áður en yfir lauk. Ég teiknaði risaeðlur, las um risaeðlur. Ég einsetti mér að verða steingervingafræðingur - þangað til ég komst að því að það væru engin risaeðlubein á Íslandi, heldur væri ég bara grafandi upp morkin geirfuglshræ.
Það sem gerðist líka var að ást mín á kvikmyndum fæddist fyrir alvöru. Ég eyddi ótal klukkustundum hangandi inni á Tröllavideo að skoða hulstrin á hrollvekjum og vísindatryllum sem ég hafði hvorki aldur né fjárráð til þess að leigja og á sama tíma að forðast bæði grunsamlegt augnaráð og yfirþyrmandi kaupstaðarlyktina af joggingbuxnaklædda eigandanum.
Seinna sama sumar ferðaðist ég í kringum landið með pabba. Ein skýrasta minning mín úr æsku er að sitja í framsætinu á gömlu Toyota Cressidunni hans, halla höfðinu að glugganum og horfa á sjóndeildarhringinn þjóta framhjá, ímyndandi mér alla þá mögulegu og ómögulegu hluti sem gætu legið rétt handan við það sjáanlega. Í þessum þönkum spurði pabbi mig oft hvað ég væri að hugsa svona mikið. Ég gat ómögulega komið því í orð, og get það enn síður núna. Þetta var bara óbeislað ímyndunarafl, ósnert af kaldhæðni og pólitík og eilífum sandpappír tímans. Ég leyfði mér að hugsa eitthvað stórkostlegt án þess að líða eins og vitleysing eða aula.
Mörgum árum seinna, þegar ég hugsaði af alvöru um að búa til bíómyndir, lofaði ég sjálfum mér að ég mundi aldrei gleyma þessari tilfinningu sem ég fann þegar ég var 9 ára. Auðvitað var það ómögulegt loforð. Ég man eftir að hafa liðið svona, gat séð tilfinninguna en höfuðið var orðið allt of fullt af kjaftæði til að geta fundið hana. Allt of mikið annað sem engu skiptir en tekur allt plássið. En stundum koma blossar sem maður reynir að fanga í eins mörg andartök og maður getur - eða þar til allt hitt kjaftæðið kemur aftur flæðandi yfir mann. Það er víst félagslega óábyrgt að vera of glaður of lengi.
Og ég sá aldei Super Mario Bros.