Árið er 1996 og ég er tólf ára með ættbálknum í menningarparadísinni Benedorm. Einu sinni sem oftar geri ég mér ferð í litlu sjoppuna á horninu til að kæla mig niður. Maður sem einnig gisti á hótelinu ásamt foreldrum sínum spyr mig á ensku hvort hann megi vera samferða mér. Ég segi bara sure því að ég vorkenndi honum. Hann var svona um þrítugt, en með foreldrum sínum. Hann haltraði örlítið og mér fannst hann vera eitthvað grey. Við erum búin að labba svona 40 metra þegar hann grípur í höndina á mér. Ég held áfram að labba, en horfi niður og veit ekkert hvernig ég á að takast á við þetta. Ég sagði nú sure við því að vera samferða. Kannski væri hann líka þroskaskertur, og þetta væri bara eitthvað alveg beisikk. Maðurinn togar mig að sér og byrjar að kyssa mig. Hann er ótrúlega sterkur, og ég er bara lítil flís. Ég reyni að slíta mig lausa og finnst ég öskra en ég í rauninni bara hvísla: STOP ÐIS! ÆM TVELF! ÆM TVELF!
Ég loksins næ að komast undan og hleyp til mömmu. Ég segi henni hvað gerðist, en það var erfitt því ég var viss um að hún myndi segja að þetta hafi nú verið mér að kenna. Sú varð ekki raunin. Við töluðum við fararstjóra sem sagðist ætla að gera eitthvað í málunum. Þetta var snemma í ferðinni og ég vonaði að maðurinn og fjölskylda hans yrðu færð um set, en nei, það gerðist ekki. Ég veit ekki hvað var gert, eða hvort nokkuð var rætt við manninn yfir höfuð. Ég reyndi að forðast hann, en lítið hægt að forðast fólk á hóteli. Síðan fóru þau bara heim aftur á sama tíma og stóri hópurinn sem þau voru með. Og hvílíkur léttir. Nú gat ég sprangað um á sundfötum án þess að líða illa.
Ekki gat ég skilið á viðbrögðum fararstjóra eða lausninni sem fundin eða ekki fundin var að nokkuð tillit væri tekið til sjokksins sem tólf ára Margrét lenti í, eða að mark hefði verið tekið á mér. Í rauninni var andvarp fararstjórans þess eðlis að hann nennti ekki að díla við þetta vesen.
Sami stjarfinn hefur nokkrum sinnum komið síðan þetta var. Einu sinni í mun alvarlegra ofbeldi – en hann kemur líka í næstum hvert einasta sinn sem ég set á mig heyrnartól og spila músík fyrir fullt fólk. Og hér er ég ekki að tala um frumskóginn miðbæ Reykjavíkur, heldur settlegar árshátíðir og jólaboð, meira að segja brúðkaup og afmæli. Í hverju einasta fyrirtæki eða hópi af fjölskyldu og vinum er nefnilega einn dónakall, sem allir kóa með, og koma til lítillar aðstoðar þegar viðkomandi lætur til skarar skríða. Á svona giggum eru sjaldan öryggisverðir sem hægt er að kalla til – og hver er ég, utanaðkomandi konan, að skemma veisluna með því að láta henda frændanum eða besta vininum út?
Viðbrögðum við vælinu í mér er hægt að skipta í þrjá flokka:
1. Kommon mar. Vertiggisona öpptæt.
2. Hva? Ertu ekki svona partýstelpa?
3. (Algengast): Æj, já, eh, hann er alltaf svona.
Oftast dugar að benda dónakallinum á að þetta sé nú ekki viðeigandi, nú sé partý og gleðskapur – en oft gerist það sama og í gamla daga, ég held að ég sé að standa fast á mínu, en það kemur bara eitthvað hvísl. Tala nú ekki um ef viðkomandi er kominn með hendurnar upp pilsið mitt – og ég er að reyna að vinna og halda öllum í stuðinu á dansgólfinu.
Fyrir tæpum tíu árum spilaði ég í jólaboði fyrir stórt fyrirtæki. Þá lenti ég í helvíti slæmu keisi. Hann var einhver þekkt týpa (en ég vissi það ekki, ég var 21 árs) og var víst þekktur fyrir að vera gæinn sem alltaf eyðilagði og káfaði, því hann varð alltaf of fullur. Samt var honum alltaf boðið, og alltaf hélt hann djobbinu þrátt fyrir að margar konur hafi sömu sögu af honum að segja. Þegar heim var komið henti ég inn bloggfærslu þar sem sagði eitthvað svona var að spila á frábæru giggi, en eins og svo oft áður er alltaf einum dónakalli sem tekst að skemma allt með dólgslátum, dónaskap og fleiru. Meðfylgjandi var mynd af troðfullu dansgólfi, fólk með hendur á lofti, allir í stuði – og svo var hann þarna óskýr, í einu horninu.
Og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
Nú hefði verið töff að maðurinn hefði verið tekinn á teppið og t.d. hvattur til að fara í meðferð. Ég fékk símtal frá yfirstjórn fyrirtækisins. Að svona ætti manneskja sem væri ráðin ekki að haga sér. Ég var sammála því – því ég hélt að það væri átt við þennan mann. En nei, þetta sneri að mér. Fyrir þennan pening sem ég fékk fyrir þetta gigg átti ég að vessgú að láta þetta yfir mig ganga. Ég átti svo líka að eyða bloggfærslunni. Þar að auki var mér sagt að ég yrði sko aldrei bókuð aftur. Það er reyndar kjaftæði, fyrirtækið hefur oft bókað mig eftir þetta enda er stjórn starfsmannafélagsins síbreytileg. Ég tek þó eingöngu að mér stærri gigg þar sem ekki er hægt að koma að mér eða ég fæ einhvern annan með mér (karlkyns) til að halda þessari týpu frá.
Lógíkin er sú að ef mér er borgað fyrir að spila lög þá megi heilinn á mér og hendurnar sjá um það, en kroppurinn minn sé algjörlega up for grabs. Hönnunarmiðstöð hvatti fólk um daginn til að hætta að auglýsa eftir fólki í sjálfboðavinnu – að hætta að nota áhuga fólks og elju sem afsökun til að borga því ekki. Mér finnst verra að borga fólki fyrir eitthvað en að líkami þeirra og virðing sé eitthvað til að leika sér að á meðan.
Og af hverju tengjast þessar tvær sögur? Því að ég kann jafn illa við káf og áreitni 12 ára, 21 árs og 31 árs. Ég vildi óska þess að þetta væru einu sögurnar sem ég hefði, ég hef svona 30 sögur sem bara eiga sér stað þegar ég er að gigga. Mun fleiri um hversdagslegt káf og klíp, ég bara nenni ekki að muna þær allar því það er í alvöru svo hversdagslegt og ég er að reyna að taka þetta ekki inn á mig. Málið er að langflestar stúlkur eiga sögur af svona óþægilegu einhverju, sem þeim fannst ekki taka því að tala um eða klaga því að þetta er svo algengt. Hverju ætti einn klagdropi í hafið að breyta?
Mín dæmi sem ég skrifa um hér eru ótrúlega sakleysisleg og algjör tittlingaskítur (get it?) miðað við þau grófu ofbeldismál sem þögguð eru í kút innan fjölskyldna, fyrirtækja, bæjarfélaga og innan ýmiskonar kerfa og geira. Kóað er með kynferðisbrotamönnum. Efast er um að fórnarlömb séu að segja satt, meira að segja konur sem hafa þroskaskerðingu sem lýsir sér meðal annars þannig að þær gætu ekki búið til svona sögur eða munað þær nema að atburðirnir hefðu átt sér stað.
Og fólki finnst í alvöru fyndið að spyrja nuddkonur um Happy Ending og segja svo djók á eftir.