Í mér hefur lengi blundað ákveðinn uggur, óljós grunur um að ekki sé allt með felldu. Í gegnum árin hef ég þó trúað samfélaginu sem sannfærir mig um að þetta sé ég. Smám saman hefur svo sannleikurinn runnið upp fyrir mér. Meistaralegasta blekking okkar tíma hrundi á endanum fyrir augum mér, allsbert spriklaði fyrirbærið útsmogna. Í einvígi þess við eðlilega hegðun stendur það uppi sem ótvíðræður sigurvegari, auk þess að vera erkitáknmynd ákveðins menningarlegs forræðis sem gjörsigrað hefur alla heilbrigða skynsemi. Fyrirbærið felur sig á bak við dulnefnið íþróttir og hefur ítrekað teygt ísmeygna anga sína að mér úr öllum skúmaskotum og æpt á mig allskyns sturlaðar upphrópanir og fáránlegar fullyrðingar sem allir nema ég virðast trúa.
Lengst af blunduðu þessar grunsemdir í dýpi eigin kvenlegs óöryggis. Hvernig sem ég reyndi skildi ég ekki rangstöðu og fylltist alltaf ákveðinni örvæntingu í miðjum seinni hálfleik, hvort sem um fótbolta-eða handboltaleik var að ræða. Skynsemin sagði mér að á einhverjum tímapunkti hlyti þetta að enda, leikurinn gæti tæplega enst að eilífu, en tilfinningarnar mótmæltu. Í kjölfar fótboltaleiks sem ég ung og óhörðnuð lét gabbast á í fimbulkulda upplifði ég síðan einhvers konar áfallastreituröskun. Að níutíu óendanlegum mínútum loknum hafði ekkert gerst annað en að menn höfðu hlaupið fram og aftur með bolta en í stað þess að binda enda á ósköpin var þá framlengt um þrjátíu mínútur. Ég veit að þetta er lyginni líkast en ég ábyrgist sannleiksgildi þessarar ljótu sögu sem hér er fyrst og fremst sett fram í forvarnarskyni fyrir auðblekkjanlega kjána eins og mig. Fótboltaleikir fara fram utandyra og eru gjarnan framlengdir um hálftíma. Staðfest.
Yfirþyrmandi áhugaleysi undirritaðrar á slíkum leikjum er þó ekki inntak þessara orða. Fólki er fullfrjálst að leika sér leiðinlega fyrir mér. Hitt er er mér hugleiknara, hvernig samfélagið hefur hengt ýmis heilög gildi við slíka leikjaiðkun. Keppnisíþróttir hverskonar þykjast þannig stuðla að líkamlegu og andlegu heilbrigði og dulbúa sig sem jákvæður kostur fyrir börn og ungmenni sem ella myndu leggja stund á aðra og verri iðju eins og sjónvarpsgláp, sjoppuhangs og ámóta sukk. Líkamlega heilbrigðið eitt og sér er auðvitað hreinn brandari, best borinn fram af vörum voltarenbryðjandi atvinnumanna með slitnar hásinar og enga liðþófa. Eigin bakgrunnur í sjoppuhangsi á unglingsárum er umtalsvert stöndugri framtíðarforsenda en atvinnumennska unnustans. Hnén bera hann varla út í sjoppu.
Andlega heilbrigðið er þó öllu ósvífnara. Á einhverju augnabliki í fyrndinni tókst óða íþróttamanninum sem enginn nennti að hanga með, í krafti vissra styrkleikayfirburða, að koma óþolandi eiginleikum sínum að sem eftirsóknarverðum mannkostum og allar götur síðar hafa systurkenndirnar árásagirnd og sjálfsdýrkun verið upphafnar og þeim þröngvað upp á ómótuð ungmenni. Keppnisíþróttir, sem við hreinlega höldum að börnum og öðrum minna þroskuðum mönnum, endurspegla þannig allt sem er að mannlegu samfélagi. Í gegnum þær boðum við mikilvægi þess að vera sterkur, sigra aðra og kremja og vinna þannig lífið. Við þykjumst boða samstöðu og hópefli en það sem við í raun gerum er að innræta hina gullnu ,,við og hinir” reglu, að eilífu, amen. Áfram Ísland. Íþróttir standa þannig að mörgu leyti vörð um þau gildi efnahagselítunnar og þeirrar einstaklingshyggju og valdaforræðis sem kapítalískt þjóðfélag nútímans byggir á. Dulbúinn sem saklaus leikur án nokkurrar tengingar við leiðindi á borð við pólitík og vinnumenningu spilar íþróttaheimurinn stóran þátt í að styrkja og normalísera þá samfélagsgerð sem hentar ráðandi öflum. Ægikraftur hringleikjahússins hefur síst dvínað í gegnum aldirnar. Þæg og hlýðin æpum við síðan öll í kór, drekkjum öllum efasemdum í bjór yfir leikjum og hvílum róleg í þeirri fullvissu að börnunum sé betur borgið á æfingu en í tölvuskömminni.
Á þessum tímapunkti í skrifunum skynja ég töluverða heift og hatur beinast í átt til mín á öldum ljósvakans, jafnvel brottrekstur úr vinahópum. Mér til varnar vil ég þó ítreka það að almennt reyni ég að sýna því vafasama fyrirbæri sem við köllum mannlegt eðli og felum ýmsar syndir undir ákveðið umburðarlyndi og skilning. Á einhverjum vettvangi verðum við jú að fá útrás fyrir kenndirnar sem kvelja okkur. Undarlegt hlýtur þó að teljast að einni slíkri útrás skuli hampað svo mjög að við reisum henni rándýr musteri og veitum ómældu fé, athygli og upphafningu í hennar átt á meðan aðrar sambærilegar kenndir eru hjúpaðar vandræðalegri þögn og siðlegu eftirtektarleysi. Mér hreinlega sárnar stundum fyrir hönd allra fordæmdra perra og klámneytenda sem skömmustulegir standa í skugga strákanna okkar, alfarið að ósekju.
Líkamleg hreyfing, hin hreina íþrótt sem snýr að eflingu líkama og sálar er gott mál og göfugt. Að aðskilja slíkt frá ofstopafullri félagsmótun á kostnað samferðarfólks tel ég verðuga áskorun til okkar allra og er ég sjálf þar síst undanskilin. Vinalegur fjölskyldukleppari endar jafnan í öskrum og brotnu leirtaui fái ég að taka þátt. Í hverskyns keppnisaðstæðum finn ég örla á óþekktum og illgirnislegum hneigðum, jafnvel í garð eigin barna. Í guðanna bænum, verndum því börnin. Í það minnsta mín.