Ókei, sleppum formálanum, vöðum bara beint í þetta.
Það er tvennt í stöðunni: Annað hvort endurspeglar málflutningur Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, ágætlega viðhorf starfssystkina hans, svona almennt og yfirleitt, eða hann er vondur talsmaður fyrir stéttina sem hann tilheyrir. Það er eiginlega ekkert þarna á milli.
Það hefur margsýnt sig að Íslendingar treysta lögreglunni sinni vel — betur en flestum öðrum stofnunum samfélagsins ef það er eitthvað að marka kannanir. Það á eftir að koma í ljós hvort mótmæli við lögreglustöðina í byrjun síðustu viku séu til merkis um að það traust sé að dvína. Þar flugu egg, þannig að það væri í sjálfu sér athyglisvert ef traustsmælarnir mundu ekkert hreyfast.
Allavega. Ef það fyrrnefnda er rétt um Snorra Magnússon — að hann tali almennt og yfirleitt fyrir munn lögregluþjónanna sem hann er í forsvari fyrir — þá verðskuldar lögreglan einfaldlega ekki allt þetta traust. Vegna þess að ef maður ætlar að treysta fólki þá er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu til þess að það hafi sæmilega óbrjálaðar skoðanir.
Því hefur ekki verið að heilsa í tilfelli formanns Landssambands lögreglumanna.
Þessi bekkur
Við getum byrjað í júlí árið 2013, þegar Snorri tók til máls í fréttum Stöðvar 2 um handtöku á Laugavegi sem varð fræg að endemum. Þar náðist á myndband þegar lögreglumaður rykkti í konu sem féll harkalega með bakið á bekkjarhandrið. Snorri varði handtökuna með þeim rökum að handtökuaðferðin væri bæði viðurkennd og norsk, og þess vegna hlyti þetta allt að hafa verið gert samkvæmt kóngsins og kúnstarinnar reglum.
Hann bætti svo við þessum gullmola hér og setti í leiðinni nýtt viðmið í að kenna öðrum um: „Vissulega er það óheppilegt að þessi bekkur skuli vera þarna á Laugaveginum og fyrir það lítur atvikið verr út en ella.“
Ekki fer sögum af því hvort þessi óheppilega staðsetti bekkur hafi síðan fengist færður eða hvort hann hafi slasað fleiri vegfarendur, en hitt liggur fyrir að Hæstiréttur var ósammála Snorra um ágæti þessara norsku fangbragða og dæmdi lögreglumanninn á myndbandinu í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.
Her?
Það var svo í október í fyrra sem lögreglan varð skyndilega æst í að eignast nýjar vélbyssur, af því að eins og við vitum eykst öryggi og ekki síður öryggistilfinning almennra borgara í réttu hlutfalli við fjölda skotvopna í umferð. Snorri rökstuddi að mikilvægt væri að betrumbæta vopnabúr íslensku lögreglunnar meðal annars með þessum orðum: „Við verðum líka að horfa til þess að hér er hvorki her né þjóðvarðarlið sem flest önnur ríki hafa yfir að ráða.“
Um þetta er það að segja að það er hrein sturlun að líta svo á að íslenska lögreglan sé einhvers konar staðgengill hers. Ef við vildum hafa her á Íslandi þá mundum við koma okkur upp her og þá gæti Björn Bjarnason dáið sáttur. En við viljum ekki hafa her, teljum okkur ekki þurfa her — við erum flest býsna stolt af því að vera herlaus þjóð — og af því leiðir að við þurfum ekki heldur neitt til að hlaupa í skarðið fyrir her. Og guð forði okkur frá því við að lögreglan fari að líta svo á að það sé hennar hlutverk.
Ha?
Spólum nú áfram til síðasta vors, þegar Snorri Magnússon lét einhver vanstilltustu og rugluðustu ummæli síðari ára falla í viðtali á Útvarpi Sögu (hvar annars staðar):
„Það er agaleysi í þjóðfélaginu, algert agaleysi og maður sér það bara í umferðinni í og úr vinnu á hverjum degi það er bara einhvern veginn algjört agaleysi á fólki, skilningsleysi og virðingarleysi fyrir náunganum.“
Til þess að ráða í það úr hvaða jarðvegi og hugarástandi svona skoðun sprettur þarf annað hvort einhvers konar yfirskilvitlegt innsæi eins og við þekkjum úr lögguþáttum í sjónvarpinu eða óhefðbundnar rannsóknaraðferðir á mörkum laganna, vegna þess að það blasir við öllu bærilega eðlilegu fólki sem býr og starfar í þessu þjóðfélagi sem Snorri talar um að þetta er tómt bull. „Crazy talk“, eins og það heitir á ensku. Óráðshjal. Og ef þetta er viðhorf sem viðgengst víðar innan lögreglunnar lögreglunni en innan í hausnum á formanninum þá fyrst höfum við ástæðu til að fara að svitna köldu.
Uppgjöf
Og nú síðast voru það hryðjuverkin í París. Formaður Landssambands lögreglumanna beið ekki boðanna, einum og hálfum tíma eftir að fréttir bárust af ódæðunum var hann búinn að skella skuldinni á skort á landamæravörslu í Evrópu vegna Schengen-samstarfsins og umburðarlyndi Evrópu allrar „gagnvart innrás ósamrýmanlegra sjónarmiða vestrænna gilda lýð- og frjálsræðis!!“
Látum vera að það er ekkert sem bendir til þess að Schengen-samstarfið hafi liðkað til fyrir hryðjuverkamönnunum í París — það er seinni hlutinn sem er hrollvekjandi. Þar fetar Snorri sömu slóð og forseti Íslands og forsætisráðherra (sem er efni í miklu fleiri og miklu lengri pistla, en við byrjum smátt), að ýta undir ótta okkar við hið óþekkta, með mildilegu tali í bland um að flestir flóttamenn og múslimar séu nú vænstu grey, til að skapa sér ásjónu yfirvegaða greinandans. Með því uppfylla þeir einu ósk hryðjuverkamannanna — terroristanna, sem kallast það eingöngu af því að meginmarkmið þeirra er að skapa hræðslu, ótta — terror — hjá sem flestum og sem lengst.
Forsætisráðherra gaf því svo undir fótinn að fullkomna uppgjöfina fyrir terroristunum með því að veita lögreglu betri „tæki og úrræði“ (lesist: byssur og forvirkar rannsóknarheimildir) til að kljást við ógnina. Snorri gæti launað honum greiðann með því að taka sæti á lista framsóknar í næstu kosningum, hann er víst nýbúinn að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum.
Ég ræð engu um það hvern lögregluþjónar velja úr sínum röðum til að vera í forsvari fyrir sig og sína hagsmuni — það er alfarið þeirra mál. En það hefur samt áhrif á mig, og núna er staðan sú að í annað hvert skipti sem Snorri Magnússon tjáir sig þá minnkar traust mitt til lögreglunnar um sirka fimm prósentustig.