Fyrir nokkrum mánuðum var ég einn af gestum í þættinum Lýðveldið. Þetta var svona grínskemmtiþáttur sem fjallaði um tilhugalíf og ýmislegt því tengdu. Þar var ég spurð út í hugtakið Friendzone - sem þýðir það þegar maður heldur að maður sé að reyna við einhvern geggjað mikið og svo kemur í ljós að viðkomandi vill ekkert meira en kunnings- eða vinskap.
Þetta á víst að vera agalega hræðilegt: Að viðreynslan hafi farið í vaskinn er ekki óskastaða, en að segja að möguleg vinátta sé hroðaleg, það er fulllangt gengið. Það er ekki vináttan sem er það vonda heldur höfnunin. Að gera hosur sínar grænar fyrir einhverjum getur endað með því að maður komist á séns, eða ekki. Óttinn við höfnun gerir fyrsta skrefið erfitt. Hins vegar ef hlutirnir ganga illa, hvort er þá betra að heyra „Vá, þú ert kríp, þú ert að misskilja öll okkar samskipti“ eða „Ég kann vel við þig, og ég hélt þú værir vinur minn?“
Ég var á Dunkin’ Donuts um daginn (já dæmdu mig bara lufsan þín) og heyrði þar á tal tveggja menntaskólapilta. Annar þeirra sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hefði verið „beisikklí að hjúkra henni í gegnum þetta breiköpp” og að svo þegar hann ætlaði að „meikamúv“ þá hafi stúlkan friendsónað hann. Hann var brjálaður. Því miður var ég með fullan munninn af kleinuhring og ekki alveg búin að forma pælinguna nógu vel til að hnippa í hann og segja að þó að einhver sé næs við einhvern þýðir ekki að viðkomandi skuldi honum skot á móti, kynlíf eða ást. Vissulega er hægt að leggja sig fram og reyna að heilla viðkomandi, en í alvöru, viðkomandi skuldar ástfangna lúðanum ekki rassgat.
Umræður piltanna snerust um að þetta væri svo týpískt, að næsgæjarnir væru alltaf vinastimplaðir og að þeir ættu ekki séns því að þeir væru svo næs. Maður fær ekki neitt í staðinn fyrir að vera næs, nema hlýtt í sitt eigið hjarta, ef maður er næs í alvörunni.
Hið stórkostlega internet segir mér að til sé fullt af bókum sem fjalla um það hvernig maður geti komist út úr friendzoneinu og brotið þennan hræðilega vítahring sem snýst um það að vera sífellt að eignast vini í stað þess að fólk vilji sofa hjá þér. Mér dettur strax í hug einföld lausn. Hún er fólgin í hreinskilni og að sleppa hálfkveðnum vísum og vera óhræddur við að fá höfnun. Ef þér finnst gjörsamlega ótækt að fólk sem passar saman í klofinu séu vinir þá er niðurstaðan úr prófinu þessi: Þú ert Harry í When Harry Met Sally. Til hamingju.
Ok. Ég nenni ekki að skrifa lengur svona opið um alls konar kyn og kynhneigðir. Þetta eru mestmegnis gagnkynhneigðir karlmenn sem líta á vinamengi þokkafullrar konu sem ömurlegan stað að vera á í lífinu.
Það er ekki smart að búa til samviskubit hjá þeim sem hafna vonbiðlum. Enginn skuldar neinum tilfinningar. Það einfaldlega virkar ekki þannig. Mögulega er konseptið búið til til að milda höfnunarhöggið, en það eina sem átti sér stað er að skot var ekki gagnkvæmt. Hugtakið snýst um það að manngæskan ein skili fólki ást, virðingu, kynlíf og allt sem hugurinn girnist – en ef þú ert góður bara til þess eins að fá að ríða, þá bara sorrí, býrðu ekki yfir manngæsku. Það er verið að þröngva fólki í að láta undan og gefa eftir, og ef það er ekki gert þá er hér eitt samfélagslega viðurkennt samviskubit handa þér góða mín, sem er algjörlega búið að normalísera hjá stórum hópi fólks.
Og hvort er verra? Að vera hafnað eða komast að því að manneskja sem maður var farinn að meta mikils, og vilja hafa í vinahópnum sínum var bara að umgangast mann til að reetha (sagt með amerískum hreim)? Á sama tíma og við hvetjum hvort annað til að fá já og að samþykki sé sexí þá er þessi umræða um þetta vinamengi út um allt. Ef þú segir að stelpa sé köld og ömurleg því að hún opnaði ekki á sér hjartað og klofið fyrir þér þegar þú varst að sýna vináttu og virðingu, þá ertu einfaldlega passívaggressívur sósíópati. Ef þér finnst manneskja skulda þér kynlíf því þú ert svo frábær manneskja, þá ertu ömurleg manneskja. Ekki frábær.