Mínímalískur lífstíll takk fyrir sælir. Ójá, rúllum út rauða dreglinum fyrir nýjasta æðið. Nafnið eitt og sér er flókið og langt, í organdi andstæðu við allt sem er lágstemmt og nægjusamt. En höldum okkur við efnið. Nú er því sumsé básúnað um allar koppagrundir að allir eigi að tileinka sér mínímalískan lífstíl sem snýst um að einfalda lífið, eiga bara hluti sem þeir nota og minnka óþarfa og tilgangslausa neyslu.
Einmitt það. Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Eða jú. Gerir fólkið sem boðar þessa trú sér grein fyrir því hvað það er pínlegt fyrir okkur sem erum saklaus af bruðli og safnaratendensum að þurfa að hlusta á þetta eins og þetta séu einhver ný fræði? Ég segi fyrir mína einföldu parta: En ekki hvað? Þegar ég opna ryðgaða laptoppinn minn, gamla hauginn sem tekur korter að ræsa, blasa nú við átján þúsund greinar um fólk sem hreinsaði allan óþarfa út af heimilinu, henti öllu og hætti að eyða peningum í óþarfa. Ójá, þarna situr liðið, boðandi fagnaðarerindið í hvítum stílhreinum sófa sem stendur á bæsuðu parketi og úti í glugga er horuð orkedía að berjast fyrir lífi sínu. Í sjálfumglaðri gospelvímu er gert mikið úr þessari „frelsun”. Þetta lætur eins og það sé að uppgötva eitthvað fyrir okkur hin. Sjálfhverfan er algjör: Fyrst þau voru í ruglinu hljótum við öll að hafa verið það.
En hérna kemur það: Við vorum ekki öll í röðinni að bíða eftir nýrri týpu af röndóttum blómavasa eða að slást með hnífum fyrir utan Elko á svörtum föstudegi. Og svo ég tali fyrir sjálfa mig, því ég er að skrifa þennan pistil, þá hef ég lifað eins og nirfill alla mína hunds og kattar tíð, nýtt hvert einasta snitti og aldrei keypt mér hálfan hlut nema líf mitt lægi nánast við.
Ég var svo nýtin sem barn að mamma djókaði með að ég hlyti að hafa dáið úr hungri í fyrra lífi (hafðu það matarsóun, þú verður tekin fyrir í næsta pistli). Ég geymdi svo lítið sem hálft ritzkex þegar ég gekk frá. Ég var klukkutíma að opna eina afmælisgjöf því ég geymdi allan pappír.
Vitiði hvað ég át í nesti þegar ég var unglingur? Ég keypti mér dagsgamalt djönk úr bakaríinu á 29 krónur. Jebb. Stökkt kruðerí sem enginn snerti á nema ég og síðan kannski rotturnar í gámnum í húsasundinu á þriðja degi. Ég gerði þetta til að spara vasapeninginn minn. En var það til að kaupa mér föt eða glingur eins og neysluóð „stelpa” fyllandi upp í tómarúmið? Kristur Drottinn, nei. Ég safnaði peningnum saman í stóra hrúgu og lagði fyrir. Eins og Jóakim aðalönd. Ég vildi eiga varasjóð svona just in case. Ég var 13 ára.
Ég keypti fyrsta sófann minn um daginn. Ég er þrjátíu og fokking átta ára. Fram að því hafði ég notast við það sem var til í fjölskyldunni. Jebb. Ég hef ekki keypt mér jólakjól síðan 2003. Þegar eldri sonur minn fæddist vitiði hvað ég notaði fyrir vöggu? Gamla þvottakörfu sem ég fann heima hjá ömmu og afa og hafði einnig verið notuð sem burðarrúm árið 1953. Ég saumaði í körfuna úr gömlu vatti og rúmfötum úr geymslunni. Og ég kann varla að þræða saumavél. Neyðin og allt það.
Eigum við að hætta okkur yfir í hryllinginn sem er útgangurinn á mér? Hárið? Ég er grárri en gangstéttarhella en til að spara þá á ég svona hármaskara (keypt í apóteki á 1200 kall) sem ég nota til að lita í gráu hárin því ég tími ekki að fara í strípur eins oft og útlitsdýrkandi heimurinn vill að ég geri. Ef ég lendi í úrhelli leka brúnir taumar niður andlitið eins og skúffukaka sé að bráðna yfir höfuðið á mér. Og talandi um maskara. Augnmaskarinn minn er löngu búinn en ef ég læt einn vatnsdropa leka ofan í hann öðru hverju getur hann enst alveg endalaust.
Þið getið því rétt svo ímyndað ykkur bræði mína þegar lífstíllinn minn er allt í einu orðinn að einhverju rosalegu æði OG til að bíta höfuðið af skömminni virðast allir liggja undir grun um að hafa verið í neyslubrjálaða liðinu. Orðræðan sem er í gangi gerir ráð fyrir því að við séum ÖLL jafn sek. Oftar en ekki beinist mínímalíska kastljósið að „konum” því við erum auðvitað svo hellaðir eyðsluseggir (#6dagsleikinn góðan dag).
Og svo ein lauflétt játning hér fyrst ég er komin af stað. Ég á eitt, bara eitt, sem ég hef alltaf leyft mér þrátt fyrir blóðböð síðustu ára sem er líf mitt og það eru jólaseríur. Ég set þær í alla glugga og elska þessa djöfla meira en börnin mín. Ef ein pera svo mikið sem flökktir þá kaupi ég nýja seríu. Ef ég heyri af nýrri tegund þá hringi ég í búðina til að ræða vött og lýsingarmöguleika. Ef það væri löglegt mundi ég giftast jólaseríu og/eða láta jarða mig í miðri seríudeildinni í Blómavali. Og hvað haldiði að hafi síðan komið fyrir mig um daginn þar sem ég staulaðist út úr druslunni sem er bíllinn minn (2002 módel Space Wagon sem er að ryðga í sundur, bilað útvarp og miðstöð) og inn í Blómaval að tékka á útsölu á seríunum? Ég fékk athugasemd úr heimi mínímalíska lífstílsins: „Ég var að lesa svo frábæra grein um mínímalískan lífstíl, þú þyrftir að kynna þér hann, hver þarf nýjar seríur þegar þú getur frekar sett eitt spritkerti á undirskál og eytt síðan tíma með barninu þínu í stað þess að slást við sogskálarnar og þetta brjálæði í búðunum, Namaste.“
Namaste indeed. Þegar búið er að skipta út búslóðinni á þriggja ára fresti síðustu tvo áratugina, er von að fólki fari að leiðast og vilji finna sér eitthvað nýtt að gera? Og þá á öll hjörðin að marsera í takt og gefa velgjulegar gjafir á borð við kort sem á stendur: „Jólagjöfin mín er ég. Innilegt samtal um ástina og lífið í Öskjuhlíðinni hvenær sem þú vilt.”
En við sem erum eldri en tvævetur á þessu landi vitum auðvitað að öll svona æði ganga yfir og við tekur nýtt æði. Og hvað skyldi það verða næst? „Eyðum ýkt miklu um jólin 2016 því það er svo gott fyrir hagkerfið?”
Ég veit ekki um ykkur en ég veit hvar ég verð, sama hvað verður í móð: Í jólaseríudeildinni í Blómavali með grátt hárið, í gömlum kjól að borða gamalt vínarbrauð. Gleðilega hátíð.