Nóvember var þungur og dimmur, kaunum hlaðinn. Hvert kýlið á fætur öðru spratt upp á yfirborðið, sprakk með látum og gröfturinn gusaðist yfir okkur. Það var þó vel enda eiga kýli að springa. Illska heimsins skaut hér og þar upp kollinum og skallaði okkur beint í vestrænt karmað. Úr skúmaskotununum vall ofbeldi og klám, enda sá lögreglan sér ekki annað fært en að vígbúast í slíku árferði. Byssur eru baujur öryggis og vonar í lífsins ólgusjó. Útúr bömmeruð stauluðumst við þannig í gegnum mánuðinn, svo peppuð í leiðindi að við urðum smá fúl þegar desember hófst ekki með þeim ósköpum sem áætlað var. Í sárum vonbrigðum óðum við snakill vesældarlega hríðina organdi aumingi hvert á annað, spólandi föst í sama kynhlutgerða dekkjafarinu.
Svo gerðist eitthvað ótrúlegt. Desember kom og þaggaði niður í okkur með svo þykku lagi af yfirgengilegri fegurð að jafnvel grimmustu pistlahöfundar breyttust í mjálmandi kettlinga og hættu að nenna að rífast um hver fattaði fyrstur upp á mínímalískum lífsstíl. Það er ekkert hægt að vera brjálaður út í lífið ef þú ert fastur í jólaþorpi Dickens. Bitrustu skröggar bráðna eins og grýlukerti í slíkum erkiaðstæðum.
Og það hélt bara áfram að snjóa. Það snjóaði jafnt á réttláta sem rangláta, Gísla Martein sem landsbyggðina, Frosta Logason sem Önnu Birtu miðil. Desember nennti hreinlega ekki að spila með í leiðindunum og kaffærði okkur í svo væmnu jólaklámi að við áttum ekki breik. Toppaði sig loks algjörlega með því að pakka allsberu karldýri inn í jötu úr gleri og gefa okkur í skóinn, alþjóð og vel það til ómældrar athygli og umræðu. Jól í glerkassa, takk desember.
Þessir fyrstu desemberdagar voru á vissan hátt forspil að þeim sálmi sáttfýsi og mýktar sem landinn hummar gjarnan svona í árslok. Brúnirnar slípast ögn og við umbreytumst smátt og smátt í lokamínútur áramótaskaupsins. Hversu glatað sem skaupið var fyrnast leiðindin yfirleitt í lokalaginu og við snúum okkur hönd í hönd til betri vegar, tárumst jafnvel aðeins yfir því hvað við erum nú mikil krútt. Bljúg horfumst við í kampavínsglansandi augu og hugsum: Æi, erum við ekki öll bara að reyna okkar besta?
Allt ruglið hlýtur bara að hafa verið misskilningur, eitthvað óvart bara. Við lögum það á morgun. Auðvitað ætlum við ekki í alvöru að leyfa skelkuðum eilífðarforseta að halda áfram að fela sig á Bessastöðum þar sem hann er óhultur fyrir öllum múslimunum. Við hugsum samt til hans með ljúflegri mildi, gamalt fólk er oft hrætt við allskonar. Glætan að við munum líka raunverulega leyfa mönnum að einka-og elítuvæða grunnstoðir samfélagsins og hoppa þar með aftur í stéttskiptingu átjándu aldar. Það er bara sama trollið og djókið þarna með veiðigjaldið, einmitt að við ætlum í alvöru að ganga enn lengra og létta ríkustu einstaklingum landsins enn frekar róðurinn. Að sjálfsögðu munum við í staðinn vinna að auknum jöfnuði á nýju ári, enda flestum hugsandi verum ljóst að það er í þágu allra þegar upp er staðið.
Svo tökum við bara hressilega til í dómskerfi sem ekki virðist virka sem skyldi, þó að það eigi að tryggja réttlæti og öryggi allra samfélagshópa, og finnum í leiðinni út úr þessu með húsnæðisvandann svo þak yfir höfuðið verði ekki forréttindi útvalinna, hér á skeri hinnar miklu velmegunar. Augljóslega byrjum við samt morgundaginn á því að sækja albönsku fjölskylduna og gera allsherjar leit að sálartetri Ólafar Nordal og þeirra ráðamanna sem senda langveik börn og fjölskyldur þeirra úr landi í skjóli nætur. Það virðist grafið í fönn, frosið og týnt. En engar áhyggjur, við reddum þessu á nýju ári. Nú ruglið er runnið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.
Yfirleitt líður slíkt bjartsýniskrúttkast svo hjá. Jólaþorp Dickens fýkur út í sjó og sekkur þar með smábátunum í næsta ofsaveðri, snjórinn breytist í hálku sem fellir okkur og fótbrýtur og pistlahöfundar fyllast gamalkunnri heift yfir öllu og engu. Þannig höldum við áfram daglegu brasi í afneitun og uppgjöf gagnvart húsinu sem alltaf virðist vinna.
Einstaka sinnum gerist þó eitthvað annað. Við föttum matrixið og sjáum skýrt um stund, skiljum að það er sjálft leikritið en ekki leikreglurnar sem er meinið og munum að við getum breytt því. Þetta er okkar leikur. Stundum þarf ekki annað en nokkrar stelpur og eitt hashtagg til að breyta handritinu.
Það er sú trú sem heldur mér hér í haganum þegar jafnaldrar mínir flykkjast til útlanda, dauðleiðir á þessu súrrealíska leikriti. Trúin á bjartari tíð og bleikari blóm í fegurri hlíðum. Enn um sinn fer ég hvergi.