Ég vissi svo sem að það væri næs á Arnarnesi, ég hef nokkrum sinnum hætt mér í skoðunarferðir þangað, rúntað inn blindgötu eftir blindgötu og krossbrugðið trekk í trekk þegar ég hef keyrt ítrekað í flasið á skjannahvítum marmara- eða kalksteinsljónum. Þau geta virst óþarflega lifandi í húminu, lúra þarna í annarri hverri innkeyrslu eins og til að varna því að maður fari að væflast inn á lóðirnar og reyni að komast í snertingu við hinn íslensk-forngríska menningararf með því að nudda sér upp við jónískar súlur úr BM Vallár-steypu. Það er ekki fyrr en maður reynir að ná augnsambandi við skepnurnar að maður áttar sig á því að maður er að stara í andlitið á dauðum hlut og að jafnvel þótt hann væri lifandi þá væri hann líklega í sjálfsmorðshugleiðingum.
Ég keyri alltaf nokkrum sinnum fram hjá heimili Þorgils Óttars Mathiesen í von um að sjá hann. Það hefur enn ekki tekist, en ég geri yfirleitt gott úr því – læt eins og ég sé í skipulögðum útsýnistúr um Beverly Hills og set á svið leikþátt fyrir samferðafólk mitt, yfirleitt við góðar undirtektir. „Hvað haldið þið að þessi geri?“ spyr ég fyrir utan húsin. Svo giska ég á eitthvað; úrsmið, fyrrverandi flugmann eða fjárfesti – allt eftir því hvernig bíl er lagt fyrir utan eða hvaða tegund af kristalsljósakrónu sést inn um gluggann. Sjaldnast veit ég svarið, þetta er jú mestmegnis til gamans gert. „Hér munum við einhvern tímann búa!“ bæti ég við og hlæ svo roknahlátri.
Sagt er að vötnin á Arnarvatnsheiðinni séu óteljandi. Ég held reyndar að það sé ekki satt. Í bíltúrnum segi ég hins vegar stundum að það sama hljóti að eiga við um villurnar á Arnarneshæðinni og þeir sem fatta vísunina finnst það oft snjallt hjá mér (ég veit að það er annað hverfi en við skulum nú ekki að vera að hengja okkur í smáatriði hér).
Hlið við hlið
Það er fleira að sjá á Arnarnesinu en ljón og súlur – til dæmis hlið. Hvergi á höfuðborgarsvæðinu eru jafnmörg hlið. Sennilega hafa íbúarnir þar mikið verið að villast hver inn í annars innkeyrslur, sem er kannski ekki skrýtið enda eru þeir margir hverjir farnir að reskjast og það er almennt erfitt að greina ljónin í sundur á þeirri svipstundu sem það tekur að ákveða upp að hvaða húsi maður ætlar að keyra, þannig að hliðin eru skiljanleg í því ljósi. Svo getur líka verið að fólk vilji bara ekki að það sé alltaf verið að banka hjá því og reyna að selja því miða í happdrætti heyrnarlausra, sem er líka skiljanlegt af því að það getur verið mjög óþægilegt að segja nei við mann sem heyrir ekki einu sinni í þér. Á Arnarnesinu er fólk alið upp við að svara helst ekki með höfuðhreyfingum, ímynda ég mér.
En þrátt fyrir að það sé gott að búa á Arnarnesi og þrátt fyrir öll þessi hlið þá er hins vegar höggormur í paradís sem engin venjuleg innkeyrsluhlið halda úti: þjófar, sem eiga greiða leið um hverfið og ásælast ekki bara flatskjái og Jökla Parka-úlpur à la Baltasar frá 66°Norður heldur hefur líka einhver kvislingur hvíslað að þeim að í eldsneytistönkum á Arnarnesinu sé að finna lúxusbensín sem sé vel þess virði að leggja á sig smá ferðalag fyrir að geta tappað af jepplingum og á plastbrúsa. Og það gengur auðvitað ekki til lengdar. Á endanum verða bílarnir bensínlausir og sitja kannski fastir á Arnarnesinu. Hverjir eiga þá að keyra yfir í þarnæsta sveitarfélag og skrúfa niður hliðin sem loka Laugaveginum svo að þeir komist óhindrað leiðar sinnar sem frekast vilja það?
Hliðaveruleiki
Nei, til þess að stúka Arnarnesið almennilega af frá vandamálum samfélagsins og umheimsins þá þarf stærra og meira hlið –heljarinnar voldugt hlið þvert yfir vestanverða Arnarnesbrúna, útbúna augnskanna sem opnar umsvifalaust fyrir heimamönnum en einhvers konar rafrænu umsóknareyðublaði fyrir aðkomufólk sem verður síðan mátað við ýtarlegan gátlista í nokkurra vikna yfirlegu hjá hverfisráðinu.
Hugmyndin er kjörkuð, enda fáir sem þora í umræðu sem þessa, og upphafsmaður hennar tók fram – að eigin frumkvæði og án þess að ganga þyrfti á hann – að þótt „stungið [væri] upp á hliði [snerist] þetta ekki um fordóma gagnvart útlendingum“. Það er því ekki loku fyrir það skotið að hverfisráð Arnarness mundi nýta sér undanþáguheimild í lögum sínum til að hleypa einhverjum, til dæmis ... tja ... litlum albönskum aðkomudreng, fram fyrir röðina í skoðunarferð um þessa smættuðu Stepford Wives-útgáfu af íslenskri einangrunarhyggju. Hver veit nema hann fengi að sjá Þorgils Óttar Mathiesen.