Sem ég sigli daufur til augnanna á milli ótal sjónvarpsstöðva staðnæmist ég oft á einhverju heilabiluðu kjaftæði. Um daginn var ég frosinn svo lengi á singapúrska rokkstjörnupredikaranum og Ken-dúkkunni Joseph Prince að ég var einni dæmisögu frá því að frelsast, kaupa allt settið af DVD-diskunum hans og leggja 150.000 inn á söfnunareikning Ómega fyrir kaupum á nýjum gervihnetti og aukastrengjum í gítarinn hjá Guðlaugi Laufdal, sem ég er nokkuð viss um að vinni ekki þar lengur.
Aldrei stranda ég samt jafn kyrfilega og þegar það er einhver dagskrá í Alþingissjónvarpinu, hvað þá þegar klukkan nálgast miðnætti og þingheimur annað hvort sturlaður af réttlátri heift eða stjarfur af drykkju.
En það voru ekki líflega líflausar umræður um fjárlögin sem fönguðu huga minn. Neðst í vinstra horni sjónvarpsins míns sat nefnilega Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Eftir því sem leið á færðist athygli mín nær eingöngu að honum; forsætisráðherra virðist nefnilega hafa jafnlítinn áhuga á því að hlusta á ræður annara og hann hefur á því að halda þær sjálfur. Hann situr því þarna, í vinstra horninu, algjörlega í sínum eigin heimi, hvorki meðvitaður um tilvist annara í kring um sig né sjónvarpsmyndavélina sem er á honum. Hann var ekki að sperra sig til að svara „bloggurum“ eða flytja níðvísur um Kára Stefánsson, heldur var hann bara hann sjálfur; eins mannlegur og brothættur og ég hef séð hann. Klórandi sér í nefinu, horfandi út í loftið, fitlandi stefnulaust við snjallsímann sinn. Ég færði mig nær skjánum. Þrátt fyrir að vera á allt of stóra sjónvarpinu mínu virtist hann samt svo lítill og brothættur; svo afvopnaður og afhjúpaður. Hann var minn Almar. Ef ég gæti teygt mig í gegn um skjáinn hefði hann rétt passað í lófann á mér – sitjandi rólegur, klórandi sér í nefinu. Á daginn mundi hann vera í innanávasanum mínum og mala, en á kvöldin mundi ég búa um hann í skókassa við hliðina á rúminu mínu. Ég gæfi honum litlar kexkökur og vínber að borða og klóraði honum á maganum.
Allavegana.
Ég vaknaði úr dagdraumum mínum beint inn í ræðu Svandísar Svavarsdóttur um hversu metnaðarlaus og illa skilgreind stefna stjórnvalda í loftslagsmálum er. Íslenska þjóðin virðist almennt þjást af þeirri ranghugmynd að vegna þess að við búum í fallegri náttúru með fullt af jarðvarmaorku hljótum við þar af leiðandi að vera ótrúlega framsýnt náttúruverndarþjóðfélag. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum rétt að skríða upp úr sorpbrennslumoldarkofanum þar sem margoft hefur þurft að gera alvarlegar athugasemdir við díoxíðmengun nálægt matvælaframleiðslu og mannabyggðum. Það eru rétt fjögur ár síðan það lá svo mikið mengunarský yfir Ísafjarðarbæ frá sorpbrennslunni Funa að allt bæjarfélagið var komið með hósta eins og Tiny Tim í Jólasögu Charles Dickens.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, steig upp í pontu og benti á að það ætti nú að veita 400 aukamilljónum í þennan flokk (aðeins 100 milljónum minna en kostar að taka í sundur gamla hafnargarðinn og púsla honum aftur saman). Samkvæmt henni er málaflokkurinn þríþættur: skógrækt og landgræðsla, atvinnuuppbygging og auðlindir. Þar að auki er þarna gert ráð fyrir liðnum „ýmis verkefni“ þar sem eitt og annað varðandi loftslagsmál mundi falla undir. Ekki aðeins er búið að vatna umhverfisráðuneytið út með því að klína við það allskonar skít úr landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytunum, heldur fær stærsta umhverfisvá heimsins, breytingar á loftslagi, ruslflokkunina „ýmis verkefni“ á fjárlögum.
Sigrún benti svo á að eitt stærsta vopn okkar í baráttunni við gróðurhúsalofttegundir væri að planta fleiri trjám sem binda koltvísýring, ekki endilega að framleiða minna af honum. Þetta er flott. Við ættum öll að temja okkur það að planta einu tré í hvert skipti sem við gerum eitthvað heimskulegt.
Annars virðist helsta verkefni þessa ráðuneytis vera að rökstyðja frekari „skynsamlega nýtingu auðlinda“ sem vanalega þýðir virkjanir í þágu orkufreks iðnaðar. Jóni Gunnarssyni tókst meira að segja að túlka niðurstöðu COP21 ráðstefnunnar í París á þá leið að hún væri hvatning til þess að virkja okkar hreinu auðlindir enn frekar. Ég óska honum bara gleðilegra jóla á hvaða plánetu sem hann er frá.
Mér finnst frábært að þessi albanska fjölskylda hafi að lokum fengið ríkisborgararétt. Á sama tíma finnst mér líka glatað að það hafi þurft stöðugan ágang í fjölmiðlum til þess að fá það í gegn. Ég er ekki á því að Útlendingastofnun eða innanríkisherra séu fasistar. Ég trúi því einlægt að þetta fólk geri sitt besta innan úrelts og gallaðs lagaramma. Það stuðar fólk líka mest; allir eru sammála því að löggjöfin sé úrelt og úr sér gengin en samt þarf enn að vinna eftir henni. Það falla rök með því að það taki tíma að semja góð, þverpólitísk lög og það vona held ég allir að ný útlendingalög verði opnari og víðsýnni en þau sem fyrir eru.
Það breytir því samt ekki að við búum í breyttum heimi. Líklega breyttari en við gerum okkur grein fyrir. Næstu 30 árin að er talið að um 150-200 milljónir muni þurfa að yfirgefa heimili sín sökum loftslagsbreytinga; hvort sem það er hækkandi sjávarmáli, þurrkum, súrnun sjávar eða hitabreytingum að kenna. Setjið það í samhengi við þá litlu eina milljón sýrlenskra flóttamanna sem komu til Evrópu í ár. Þetta er fólk sem hefur enga lagalega stöðu sem flóttafólk – það fellur ekki undir skilgreiningar stríðs eða pólitískra ofsókna. Ekkert sem kom út úr COP21, Evrópulöggjöfinni eða neinni alþjóðlegri löggjöf gerir ráð fyrir þessari nánast ómumflýjanlegu staðreynd. Það hlýtur einhvern tímann að koma sá punktur sem við getum ekki lengur bent á hvert annað um að bera ábyrgð á því sem koma skal. Það er ákveðinn hópur fólks sem vill vernda íslenskt samfélag og íslensk gildi frá þeim ágangi sem fylgir innflytjendum og flóttamönnum frá öðrum menningarheimi; hvers virði eru þau gildi þegar þau geta ekki einu sinni borið ábyrgð á eigin hlut í þeim heimi sem við viljum kalla okkur framsýnan hluta af?
En það er ekki hægt að skilja okkur sjálf frá þeirri stefnu sem stjórnvöld reka eða þeim veruleika sem blasir við næstu áratugina. Ég er sjálfur svo mikill sóði að ég þori varla að að tala um það. Ég fer í 6-7 sjóðandi heit böð í viku, læt bæði heitt og kalt vatn renna þótt ég sé varla heima, á gríðarlega erfitt með að flokka pappír og plast frá öðru sorpi og hendi svona ⅕ af öllum mat sem ég kaupi. Þegar einhverjir af vinum mínum ákveða opinberlega að reyna að sporna við þeirri sturluðu sóun sem við upplifum á degi hverjum sem svokallað velferðarsamfélag með því að gerast grænmetisætur eða tala um skipulagða minnkun á einkaneyslu þá verð ég pirraður; hugsa með mér: „Hvernig voga þau sér að þykjast vera betri en ég?“ Fyrir það eitt að sýna einhvers konar samábyrgð. Hversu miklu er ég raunverulega tilbúinn að fórna?
Ég ímynda mér að hugtök eins og „góða fólkið“ spretti upp úr þessari tilfinningu; fólk sem þolir ekki að einhver vogi sér að þykjast vera einhvers konar yfirburðaþegn í samfélagi manna. Þegar við heyrum að við þurfum að brenna minna rusl eða skjóta færri hvali eða virkja færri fossa heyrist alltaf sama gargið um aðför að sjálfstjórnarrétti okkar; eins og við séum barn í frekjukasti yfir að vera skammað fyrir að kasta steinum í bíla, eða fulli frændinn í jólaboðinu sem kallar þig kommúnista af því að þú nennir ekki að hlusta á einræðu um hversu hættulegir múslimar séu. Ef við ætlum að vera svona ógeðslega léleg í lýðræði þá eigum við eiginlega ekki skilið að hafa það.
Við erum nefnilega að komast að þrotmörkum. Það er ekki lengur hægt að þykjast vera partur af hömlulausri neyslu og einhvers konar þegn í meðvituðu samfélagi. Það er ekki hægt að baða köttinn sinn upp úr bensíni og klóra sér svo í hausnum yfir því að hann hlaupi logandi og mjálmandi niður götuna. Á einhverjum tímapunkti verðum við að ákveða hvers konar samfélag við viljum vera. Taka ábyrgð á því að ekki sé endalaust hægt að gera það sem við viljum og ætlast til þess að eftirköstin séu engin. Við þurfum ekki að skjóta hvali eða leggja á Laugaveginum eða brenna sorp frekar en við þurfum að horfa á The Bill Cosby Christmas Special.
Eða við getum bara sleppt því og fagnað hömlulaust þegar Norðurpóllinn bráðnar nægilega til þess að öll kaupskip jarðar geti loksins siglt í gegnum okkar landhelgi. Við getum orðið Hong Kong norðursins þar sem allri þeirri olíu sem hægt verður að dæla upp úr Drekasvæðinu verður landað. Ólafur Ragnar verður búinn að éta svo mikið af stofnfrumum að hann mun lifa að eilífu, við vinnum öll á norskum olíuborpalli sem er búið að breyta í spilavíti og það eina sem mun standa eftir er Elliði Vignisson, standandi á fjallháum haug af logandi rusli íklæddur brynju úr gömlu dekkjagúmmíi, pískandi áfram emjandi hjörð af náttúruverndarsinnum sem eru tjóðraðir við Herjólf og draga hann skref fyrir skref út úr Landeyjahöfn eins og egypskir þrælar að hlaða pýramídana í Gísa. En við höfum svosem talað um það áður.
Ég er í það minnsta búinn að kolefnisjafna mig svo vel með þessum pistli að ég get með góðri samvisku borðað smjörsteiktar franskar andabringur með sykurbrúnuðum kartöflum, opnað nokkra tugi þúsunda í jólagjöfum og svo jafnvel séð Star Wars einu sinni til tvisvar í viðbót án þess að hafa nokkrar áhyggjur af hnignun jarðar. Í versta falli planta ég eins og einu tré.
Gleðileg jól.