Ég þróaði ung með mér smekk fyrir leiðindum. Sjónvarpið hataði ég eins og pestina, var einræn og feimin og leið langbest út í horni með skrítna bók. Oft gerði ég alls ekkert, starði bara út um gluggann eins og hundur. Í björtum og glaðlegum barnaleikjum á borð við barbí eða snúsnú leið mér eins og siðblindingja í jarðarför; ég vissi að ég ætti að upplifa ákveðnar tilfinningar og reyndi að haga mér í samræmi við þá vissu en var í raun dauð að innan. Tíu ára gömul reyndi ég jafnan að laumast óséð heim úr skólanum án þess að neinn bæði mig um að leika svo ég gæti í friði sinnt minni uppáhalds iðju það misserið.
Sú var að lesa bækur um undirokaðar konur í Miðausturlöndum (ég marglas Aldrei án dóttur minnar og Seld bækurnar fyrir ellefu ára afmælið), vefja handklæði um höfuð mér, borða ristað pítubrauð með smjöri og þykjast vera í íslamskri ánauð. Eins hafði ég þráhyggjukenndan áhuga á fortíðinni, las Jón Trausta og langaði í alvöru að búa á heiðarbýli og prófa að svelta, allavega smá. Þannig var ekki nóg með að ég væri sjálf leiðinleg heldur hafði ég sérlegan áhuga á leiðindum og eymd annarra. Þó var ég afar hamingjusamt barn og bjó að hreint ágætri hugarró undir búrkunni minni. Enginn hafði sagt mér að lífið ætti að vera sérstaklega skemmtilegt svo það var bara fínt í ládeyðu sinni.
Þessi nægjusami nörd lifir nú aðeins í minningunni. Afþreyingarbyltingin, sponseruð af hamingjuiðnaðinum, át hann fyrir margt löngu. Beyglan sú býr til vandamálið leiðindi og selur okkur svo ósköpin öll af áreiti og sjálfshjálparbókum til að leysa það. Með aldrinum afhjúpuðust mér smám saman þau sannindi samfélagsins að lífið ætti að vera partí, annars væri ég að tapa. Spyrði fólk mig frétta væri mér hollast að geta tíundað einhverja ofboðslega gleði, annars yrði samtalið bara vandræðalegt. Instagram án óteljandi exótískra upplifanna og ærandi kátínu er sóun á sæberplássi. Það nennir enginn leiðindum. Þegar sú skelfingar tilfinning læðist upp að okkur eða, guð hjálpi okkur, systir hennar depurðin fáum við andateppu og hlaupum upp til handa og fóta til að bægja þessari óværu frá okkur. Á slíkum ögurstundum skiptir öllu að tölva eða sími sé innan seilingar, annars neyðumst við til að stara ein og óvarin í gapandi gin aðgerðarleysis og eymdar. Gaman er nefnilega normið, samfelld hamingja er krafa nútímamannsins. Bara við ritun þessa pistils leiddist mér þrisvar svo mjög að ég horfði á vídjó af fílafæðingu og át sjö smákökur.
Ég trúði lengi vel á gamanið og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að hafa gaman. Ég fyllti dagana af allskyns leiðameðölum, skipulagði hin ýmsu flipp, dansaði lengst og söng hæst. Ótrú mínu leiðinlega eðli gerðist ég félagslynd og fyndin þó gamanið væri í raun og sanni að sliga mig. Vissulega er krafan þó ekki stanslaust djammandi flippgaman, þú mátt kjósa þér friðsælt jógagaman eða heilsusamlegt vegangaman. Ákjósanlegast er að geta sameinað allskyns gaman og öðlast fullkomið gleðijafnvægi. Þá vinnurðu og allir munu öfunda þig.
Einn dimman og vondan veðurdag fyrir skömmu áttaði ég mig loks. Ég bý á Íslandi og það er janúar. Mér hefur verið kalt í fimm vikur samfleytt og alltaf þegar ég lít út er myrkur. Jólin eru búin og ekkert bíður mín nema febrúar, sem er jafnvel enn verri en janúar. Þess utan er lífið bara oft hundleiðinlegt. Temmilegt þunglyndi er eðlilegt ástand, ekki krísa sem þarf að leysa með örþrifaráðum. Það er ofbeldi að skipa mér að vera glöð öllum stundum. Ég áskil mér hér með rétt til leiða án samviskubits, ég vil njóta drungans og smjatta á skammdegisþunglyndinu í friði fyrir óþolandi síbylju sáluhjálpara og hamingjuklappstýra. Vottur af depurð er ekki hættulegur, óraunhæfar regnbogalitaðar kröfur til lífs í eilífu sólskini eru það.
Mínimalismi ársins 2016 verður því tilfinningalegur. Ég læt ekki lengur drekkja mér í ofgnótt hamingjuráða og gleðiuppskrifta, afþreyingar og nýjustu tækni. Ég neita að fyllast kvíða gagnvart því fáránlega vonleysisverkefni að hafa stanslaust gaman. Hugarró og sátt við lífið er ekki að finna í þeim væmna gleðigáska sem boðberar jákvæðrar hugsunar virðast tengja orðinu hamingju, heldur þvert á móti í því að horfast í augu við leiðindin, sorgina og vandann og læra af.
Ég hyggst því stara aðgerðarlaus út í hríðina þar til mig svimar af leiðindum og allir vöðvar æpa á afþreyingu, og þá aðeins lengur. Hafir þú, lesandi góður, þrælað þér í gegnum skammdegið með skyldubros og veganviðbjóð á vörum hvet ég þig til að sameinast mér í þeirri þöglu uppreisn. Ef algjör bugun blasir við máttu grípa til búrkunnar og pítubrauðsins.