Ég kann að meta Sigmund Davíð; hann er sannarlega að hámarka það að vera forsætisráðherra. Það er eins og Sigmundur, 5 ára, hafi verið spurður af Hemma Gunn: „Hvað mundir þú gera ef þú værir forsætisráðherra í einn dag?“
„Mmm, ég mundi eignast geggjað stórt hús, og ógeðslega flottan bíl, og gefa mömmu og pabba peninga…nei, ÖLLUM peninga, mmm, og endurreisa embætti húsasmíðameistara ríkisins, og endurhanna alla miðborgina sjálfur, og borða perutertu hvenær sem ég vil!“
Hver dagur er nýr Ferris Buellerískur frídagur af ótrúlegum ákvörðunum. Ég er búinn að liggja andvaka síðan hann tilkynnti að hann ætlaði að bretta upp ermarnar og endurhanna allt Hafnartorg sjálfur á þremur vikum. Ég ímynda mér þetta einhvern veginn svona:
---
Regnið bylur á mannhæðarháum, myrkvuðum glugga lesstofu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Garðabænum. Elding kveikir eitt andartak í himninum og lýsir upp fölt andlit forsætisráðherra sem starir brúnaþungur út í húmið. Skyndilega er hurðinni að herberginu lokið upp. Í gættinni stendur holdvotur, másandi og drullugur Matthías Imsland – í fangi hans hvílir óræður hlutur, vafinn inn í rautt silki.
„Það tókst…“
Klukkustund áður stóð Matthías í svartnætti Hólavallakirkjugarðar. Upp úr gegndrepa úlpuvasanum dró hann krumpaðan miða. Hann pírði augun og reyndi að lesa eigin rithönd; blátt kúlupennablekið byrjaði strax að skolast til í höndunum á honum: „Reitur M-0415“ muldraði hann með sjálfum sér.
Matthías skreið á milli leiða. Leitandi. Öll virtust eins; gamlir líparítsteinar með máðu letri. Regnið hýddi á honum bakið líkt og svipa rómversks hermanns. Hann féll loks örmagna niður; vonarneistinn dofnandi í augunum. Hann hugsaði með sjálfum sér. „Hvað er ég að gera hérna? Ég var forstjóri flugfélags. Kannski ekkert frábærs flugfélags, en flugfélags!“ Elding lýsti upp garðinn. Bros læddist fram á varir Matthíasar. Í þessu andartaki af fullkominni birtu sá hann loksins þessi tvö orð, meitluð í stein, sem hann hafði skriðið í gegn um myrkvaðan kirkjugarðinn til þess að finna: „Guðjón Samúelsson“.
Í þann mund sem Matthías þrýsti niður fyrstu skóflustungunni skall þruman á garðinum.
Og nú hafði hann snúið aftur til meistara síns. Sigmundur réttir fram hendur sínar og Matthías leggur silkivafinn vöndulinn varfærnislega í arma hans eins og reifað barn. Sigmundur lítur ekki einu sinni framan í aðstoðarmann sinn: „Farðu Matthías. Það sem gerist hér næst er aðeins ætlað mínum augum.“
Dyrnar lokast. Sigmundur er einn.
Hinum megin í bænum, í rými sem best væri hægt að lýsa sem blöndu af satanísku hofi og ódýrri klámmyndaleikmynd, stendur Ásmundur Friðriksson rauður og þrútinn og öskrar vers úr biblíunni á einhvern titrandi hlekkjaðan aumingja sem á þann draum einn heitastan að verða meðlimur í Oddfellow-reglunni. Honum hafði fundist skrýtið að vera læstur inni í kassa með biblíunni, og honum hafði fundist pínu undarlegt að vera hlekkjaður á höndunum og skoðaður af hópi karlmanna eins og hann væri að taka þátt í hundasýningu.
En það var líklega líkkistan sem olli honum mestu hugarangri. Opna líkkistan sem í lá nokkuð heilleg beinagrind. Þar var hann látinn krjúpa á meðan Ásmundur, varastórsír og áhugamaður um innflytjendur, stóð yfir honum kuflklæddur og þrumaði einhverja sturlaða þulu.
Það er náttúrulega ótrúlegt að innan í sértrúasöfnuði miðaldra, ríkra kapítalista sé pottur brotinn í bókhaldsgerð. Jafn ótrúlegt og að miðaldra, ríkir kapítalistar hafi selt öðrum miðaldra, ríkum kapítalistum fjármálafyrirtæki á grínverði. Hver hefði haldið að þessi þjóðfélagshópur bæri ekki hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti?
---
Í lesstofu forætisráðherra fellur rauður silkivafningur í gólfið; í höndum Sigmundar er höfuðkúpa.
Sigmundur strýkur henni um aðra augntóftina, lygnir sjálfur aftur augunum og byrjar að kyrja:
„Laugarneskirkja, Þjóðleikhúsið, Sundhöll Seyðisfjarðar...“
Drunur. Viskíglösin skrölta í míníbarnum.
„..Hótel Borg, Listasafn Íslands, Aðalbygging Landspítalans, Reykjavíkurapótek...“
Það hringlar í kristalsljósakrónu. Olíumálverk af Gunnlaugi Sigmundssyni slæst utan í vegginn. Sigmundur hækkar róminn.
„Kristskirkja! Héraðsskólinn á Laugarvatni! Mjólkursamlagið í Borgarnesi! Hallgrímskirkja!“
Þá dettur á dúnalogn. Eitt andartak virðist eilíft í þrúgandi þögninni þangað til allar rúðurnar springa með ofsafengnu glerregni. Kristalsljósakrónan hrynur úr loftinu og splundrast. Olíumáluð augu Gunnlaugs sortna þar til þau verða tvö brunnin göt.
Hósti. Þurr og ónáttúrulegur. Á skrifborðinu situr höfuðkúpan – holdi klædd. Varirnar skrælnaðar, augnlokin visnuð. Húðin pappír. Hún hóstar upp ryki og ösku. Guðjón Samúelsson.
---
Í Kópavoginum stendur Ingó Veðurguð í pontu brennimerktri sjálfstæðisfálkanum, heldur á lélegri útprentun af Jackson Pollock-málverki og veltir fyrir sér hvernig það geti kostað 140 milljónir.
Við getum auðvitað sjálfum okkur um kennt. Ekki það að listamannalaun og umbætur á kerfinu í kringum úthlutun á þeim megi ekki ræða. Það er frekar hverja við veljum til þess að ræða þetta. Við bjuggum Einar Mikael til. Í kvikmyndinni Fifth Element var óværan hreinn massi af illsku – því fleiri kjarnorkusprengjum sem var skotið inn í hann því meira nærðist hann og stækkaði. Einar Mikael er eins; hann þrífst á hreinni athygli. Ég er jafnsekur og hver annar. Þetta hefði bara getað verið einn Facebook-póstur með gölnum hugleiðingum um hversu margar bækur Einar Mikael gæti skrifað á listamannalaunum (fyrir 5 milljónir á mánuði gæti hann skrifað 50 bækur á ári, fyrir 50 milljónir 500 bækur). En svo varð það að frétt sem varð að útvarpsviðtali sem varð að fréttatilkynningu sem varð að pistli. Núna er þetta orðið þannig að ég get ekki smellt á frétt inni á Vísi án þess að það sé sturluð hugleiðing eftir Einar Mikael. Eina leiðin til þess að stöðva þetta er að hætta að lesa; hætta að trúa. Þá visnar hann og hverfur aftur ofan í pípuhattinn sinn. Ef ekki mun hann stækka að eilífu þangað til hann gleypir allt sólkerfið. Ef þú starir nógu lengi inn í Einar Mikael mun Einar Mikael stara til baka inn í þig. Hann er búinn að stækka um 20 cm bara út af þessari málsgrein.
---
Garðabærinn.
Sigmundur rís sótugur upp úr brakinu, augun sindrandi af eftirvæntingu. Hann ávarpar Guðjón:
„Alfaðir. Ég er þegn þinn. Segðu mér hvað ég þarf að gera til að þóknast þér.“
Búklaust höfuðuð byrjar að hvísla. Sigmundur færir sig nær þar til eyra hans liggur þétt að skorpnuðum vörunum.
„Þú skalt reisa mér hof. Það skal hvorki standa of hátt né of lágt. Það skal falla að borgarmynd 3. áratugar síðustu aldar, hvorki fyrri né síðari. Það skal endurspegla íslenska þjóðmenningu og þjóðleg gildi okkar og standa við sjó. Þú hefur þrjár vikur til að hefjast handa. Þá, og aðeins þá, mun Framsóknarflokkurinn mælast aftur yfir 10 prósentum í fylgiskönnunum MMR.“
Við þessi orð breytist höfuð Guðjóns Samúelssonar í sand og fýkur út um gluggann.
Eitt fánalitað tár rennur niður vanga forsætisráðherra.