Morgunblaðið birti í vikunni á vef sínum ansi merkilegar myndir af fálka að éta máv sem hann drap á Akureyri. Í fréttinni kemur fram að fálkar séu ekki algeng sjón í bænum og að hann hafi haft mávinn undir eftir mikinn slag. Myndirnar voru því að mörgu leyti einstakar ásamt því að vera mjög flottar. Semsagt, gæðaefni fyrir vefinn enda deildu hundruð manns fréttinni.
Fréttinni var að sjálfsögðu dreift á Facebook-síðu mbl.is og þar skildi fjöldi fólks eftir athugasemdir. Í staðinn fyrir að hrósa ljósmyndaranum eða miðlinum fyrir skemmtilegt og frumlegt efni virtust sumir ósáttir við fréttamatið sem varð til þess að fréttin var birt á þessum fjölsóttasta vefmiðli landsins. „Hvað er fréttnæmt við þetta?“ spurði ungur maður með ættarnafn og „SO?“ spurði yfirlætisfull eldri kona. Að lokum kom svo stóra spurningin frá miðaldra konu í Noregi; hælkrókur netheima — uppgjafartakið sjálft: „Er þetta frétt?“
…
Ég reyni stundum að átta mig á því hvað vakir fyrir fólki sem nöldrar yfir tilteknum fréttum og þá sérstaklega fréttamati. Fréttirnar eru ekki rangar heldur einfaldlega ekki nógu merkilegar í hugum fólksins sem þó les þær, skilur eftir athugasemdir, dreifir á Facebook og ræðir um við vini sína. Mögulega velti ég þessu fyrir mér meira en aðrir vegna þess að ég rek lítinn vefmiðil og finnst eiginlega allt fréttnæmt, bara mismikið. Fréttamat er nefnilega fullkomlega afstætt. Einhverjum finnst frétt um að Kim Kardashian sé loksins búin að ljóstra upp leyndarmálinu á bakvið brjóstaskoruna sína mjög merkileg (límband og mikið af því) en hefur aldrei heyrt um Borgunarmálið. Aðrir vilja alltaf vita hvað Bigga löggu finnst um hitamálin en er drullusama um deilu Kára Stefáns og Sigmundar Davíðs. Sjálfur vil ég alltaf vita hvað Kára finnst og þarf eiginlega að heyra í honum varðandi troðslukeppnina í NBA.
Að mislíka eitthvað og finnast að öllum öðrum eigi líka að vera misboðið er mjög sérstök tegund af frekju. „Mér er alveg sama um þetta. Af hverju er verið að fjalla um þetta?“ Þetta er í besta falli hlægileg afstaða en hún er furðulega útbreidd og leiðinlega hávær. Svona eins og mótorhjól í miðbænum á sumrin.
Samfélagsmiðlarnir gáfu öllum rödd og það eru furðumargir að nota þessa rödd til að frekjast. Vefmiðlar gefa fólki tækifæri til að tjá sig um fréttir og koma skoðunum sínum rækilega á framfæri. Þennan möguleika mætti til dæmis nýta til að koma nýjum upplýsingum um tiltekin mál áleiðis en það gerist eiginlega aldrei. Í staðinn kemur saman hópur fólks sem lýsir vanþóknun sinni á fréttamatinu, sem er afstætt og dissar viðmælandann, sem það þekkir ekki.
Þetta er galið!
Spáið líka í að fólk noti internetið til að koma þessum skoðunum á framfæri. Fólk virðist vera að nota internetið án þess að hafa hugmynd um hvað það er — eins og það viti ekki að allar upplýsingar í heiminum eru aðeins einum leitarstreng í burtu. Ef fréttir falla ekki undir áhugasvið þeirra eru möguleikarnir á því að sækja eitthvað annað efni bókstaflega endalausir. Upplýsingar, fróðleikur, skemmtun, jafnvel menntun! tækifærin eru endalaus en í staðinn ákveður fólk að tilkynna opinberlega, að fréttin sem þau lásu hafi ekki verið þeim að skapi, að viðmælandinn sé fífl og blaðamaðurinn sem skrifaði hana sé siðlaus fáviti.
Þau hefði getað nýtt tíma sinn í eitthvað uppbyggilegt eins og að kynna sér sögu lestarkerfisins í Þýskalandi. Eða sækja nýja uppskrift. Þannig hefðu þau getað komið sínum nánustu á óvart með ilmandi brauði og óvæntum upplýsingum um fyrstu járnbrautarlestina í Þýskalandi sem fór milli Núrnberg og Fürth árið 1835.
En það þarf frekar að spyrja: „Er þetta frétt?“ í milljónasta skipti. Spurning sem hefur ekkert svar því enginn hatar sjálfan sig nógu mikið til að svara henni. Spurning sem á ekki heima í kommentakerfunum fjölmiðla. Spurning sem á hvergi heima, nema ef til vill uppi í rassgatinu á þér.