Ég man vel eftir því þegar Birgitta Jónsdóttir skreið rykug og áttavillt upp úr rústum þess sem einu sinni hét Hreyfingin eða Borgarahreyfingin eða mögulega eitthvað fleira líka – enginn man það – og tilkynnti um stofnun nýs stjórnmálaflokks. Þetta var í júlí 2012, eftir að Borgarahreyfingin hafði klofnað svo oft að hún vissi ekki lengur sjálf hvað hún hét eða hverjir tilheyrðu henni og Lilja Mósesdóttir, sem ég man í alvörunni ekki hvort var einhvern tímann liðsmaður Hreyfingarinnar eða ekki, hafði stofnað Samstöðu með Sigga stormi, sem var greinilega með besta pólitíska nefið af öllum í flokknum af því að hann forðaði sér úr honum nokkurn veginn daginn eftir.
Þetta var fráleitur tími til að stofna stjórnmálaflokk. Þjóðin var eiginlega öll í maníu – annar hver Íslendingur var sannfærður um að hann nyti nægilegs persónufylgis til að leiða óánægjuframboð til Alþingis, jafnt Þorvaldur Gylfason sem Pétur Gunnlaugsson. Ég hafði á þessum tíma heyrt eitthvað af sjóræningjaflokkunum í Evrópu, jaðarflokkum með upplýsingafrelsi sem sitt meginstefnumál, og fannst þeir svo sem ekki galnir.
Mín fyrstu viðbrögð við fréttunum af stofnun þess sem þá var kallað „Píratapartýið“ báru þess hins vegar ekki merki að ég hefði áhuga á stefnumálum Birgittu og félaga: það eina sem komst að hjá mér var nafnið á flokknum, sem mér fannst svo frámunalega asnalegt að ég skrifaði um það lítinn dissdálk í Fréttablaðið, í veikri von um að það mundi kannski skila mér sjátáti í Málfarsmolum Eiðs Guðnasonar. Það eina sem ég uppskar hins vegar var stuttlegt svar frá innanbúðarmanni í flokknum sem brást við á Facebook-síðu sinni með orðunum: „Það besta við að hafa nafnið „Píratapartýið“ er að það storkar málvitund þeirra sem vilja stjórna því hvernig fólk hugsar[...]“
Touché – ég hef farið lægra með alræðishneigðir mínar síðan. Eflaust var nokkuð til í þessu svari, og það var vissulega í anda pönkslikjunnar sem Birgitta hafði hjúpað flokkinn með, en það breytir því ekki að þegar á hólminn kom lét Píratapartýið duga að bjóða fram undir nafninu „Píratar“. Og það var líklega ágætt af því að þessa dagana er eitthvað lítið um partý hjá okkar fólki.
Þvottahúsfundurinn
Ég er tiltölulega átakafælinn maður. Ég legg lykkju á leið mína til að koma í veg fyrir að ég lendi í óþægilegum kringumstæðum, þótt þær séu smávægilegar. Ég er til dæmis hættur að svara heimasímanúmerum sem ég þekki ekki, vegna þess að í 99,5 prósentum tilvika ætlar manneskjan á hinni línunni að reyna að selja mér eitthvað. Ég er líka meira og minna hættur að fara til dyra ef bjöllunni er hringt óvænt, aðallega af því að yfirleitt er ég ekki í buxum og ég veit að ef þetta væri einhver sem ég þekkti, eða einhver sem þyrfti nauðsynlega að hitta á mig, þá mundi viðkomandi einfaldlega hringja. Ég er sannur nútímamaður – kvíðinn og lélegur.
Fyrir fáeinum misserum var ég á leið út úr íbúðinni sem ég bjó þá í, en staðnæmdist þegar ég greip í hurðarhúninn og heyrði að frammi stóð yfir hávaðarifrildi. Ég greindi ekki almennilega orða skil en inni á milli brýndi fólk raustina þannig að ég heyrði slitrur úr samræðunum og varð þá ljóst að þarna sat leigusalinn minn ásamt nágrönnum á æsilegum húsfundi og einhverra hluta vegna hafði þvottahúsið við hliðina á innganginum að íbúðinni minni orðið fyrir valinu sem fundarstaður – líklega hefur það þótt heppilegast sem hlutlaus vígvöllur.
Þau voru að rífast um einhverja framkvæmd sem ekki allir höfðu gefið leyfi fyrir, en mig varðaði ekkert um það; mig langaði bara að komast út – gott ef ég var ekki að verða of seinn á fótboltaleik – en ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að storma hálfpartinn inn í miðja orrustuna og minna þau þannig á tilvist mína og jafnframt skjóta þeirri hugmynd í kollinn á þeim að mögulega hefði ég legið þarna á hleri í óratíma. Þannig að ég beið. Og ég beið og beið og vonaði að þessum fjandans fundi færi nú að ljúka. Sem gerðist ekki, þannig að á endanum þurfti ég að bíta á jaxlinn og opna hurðina. Þau þögnuðu eitt andartak, litu á mig, heilsuðu og héldu svo fundinum áfram. Ekkert hræðilegt gerðist en ég hef aldrei verið jafnfeginn að þurfa ekki að sitja húsfundi.
Piratfesten
Stundum líður mér eins og í þessum aðstæðum þegar ég fylgist með innanmeinum Pírata breiða úr sér í beinni útsendingu – eins og ég sé að verða vitni að einhverju sem komi mér ekki við, en komi mér samt smá við, bara ekki nóg til að ég nenni að koma mér upp áhuga á því. Gagnsæið í starfi Pírata er orðið svo mikið að við erum öll að horfa á þá breytast í mjög erfiða bíómynd eftir Thomas Vinterberg þar sem fólk notar orð og frasa á borð við „bitra reiði“, „fórnarlambsstellingar“, „ofbeldissamband“ og „óttastjórnun“.
Hvað veit ég, kannski er þetta til fyrirmyndar. Kannski hefði Samfylkingin einmitt gott af því að opna „Samfylkingarspjallið“. Ég mundi samt alltaf flýja út um glugga fram hjá því þvottahúsi.
En Píratar eru bara að lenda í því óhjákvæmilega: þeir eru að átta sig á því að þeir eru búnir að breytast í stjórnmálaflokk þvert gegn vilja sínum – stóran stjórnmálaflokk. Og einn daginn vöknuðu þeir, lásu yfir Pírataspjallið og föttuðu að þeir eru ekki sammála nema einum af hverjum tíu sem telja sig til flokksmanna, sem er fylgifiskur þess að verða skyndilega vinsælt stjórnmálaafl, sem hefur auk þess þá stefnu að vera leiðtogalaust og án formfestu og að faðmurinn skuli vera opinn öllum. Það getur bara endað eins og foreldralausa partýið í bókinni Allt í sleik eftir Helga Jónsson, og eins og þeir muna sem lásu þá bók þá voru afleiðingarnar af því partýi næstum jafnslæmar og bókin sjálf.
Og allt er þetta sérstaklega mikið vandamál þegar þú veist að fyrr en síðar muntu þurfa að stilla yfir 100 frambærilegum kandídötum upp á framboðslista – þú getur svo sem gert það blindandi eins og Framsókn í borginni en þá eru svona 85% líkur á að þú endir með Gústaf Níelsson í einhverri óheppilegri fagnefnd.
Já, það er erfitt að vera stjórnmálaflokkur og þetta er rétt að byrja hjá Pírötum. Þeir eiga til dæmis alveg eftir að díla við það að Guðmundur Steingrímsson skipti yfir í þá.