Skoðanir. Oj. Það er offramboð af skoðunum. Allir eru með skoðanir á öllum hlutum; verða að æla þeim út úr sér yfir alla sem þeir geta á sem flestum miðlum. Stundum fæ ég svo mikið ógeð á eigin skoðunum að ég lofa sjálfum mér að skrifa aldrei aftur neitt á internetið.
Hér eru fjórar skoðanir.
1. Rasistar eru rasistar
Ásmundur Friðriksson er rasisti. Ekki hafa áhyggjur, það er allt í lagi að segja það.
Hann vill reyndar ekki kannast við það sjálfur, sem er heilkenni sem virðist fylgja rasistum svona almennt: „Ég er ekki haldinn kynþáttafordómum, en mér þykir mjög mikilvægt að við mismunum fólki á grundvelli kynþáttar, trúarbragða og/eða þjóðernis.“
Hið nýja stjórnmálaafl Íslenzka þjóðfylkingin reynir það sama; stefnumálin sem voru kynnt eru meðal annars andstaða við fjölmenningu og flokksmenn segjast „…alfarið á móti því að moskur verði reistar á Íslandi eins og þegar er gert í mörgum ríkjum“. Þegar gengið er á Helga Helgason, formann flokksins, um hvort þetta sé rasistaflokkur er umsvifalaust dregið í land, hann slær sér á lær og segir „Sussu neineinei, þetta snýst fyrst og fremst um harða afstöðu gagnvart lóðaúthlutunum“. Þetta er ekki rasismi, heldur skipulagsmál.
Samtökin Soldiers of Odin segjast meira að segja ekki vera rasistar, heldur félagsskapur sem umhugað er um öryggi íslensku þjóðarinnar. Góðlegir, krúnurakaðir menn í hermannabuxum sem hjálpa gömlum konum yfir götur og múslimum beint aftur „heim til sín“.
Sorrí rasistar, þið eruð rasistar. Það er ekki hægt að hafa fullkomlega rasískar skoðanir og verða svo sárir þegar einhver segir það upphátt. Þið getið ekki átt hvítu, bláeygðu kökuna ykkar og borðað hana líka.
2. Kjósum Ástþór. Kannski.
Ég ber virðingu fyrir Ástþóri Magnússyni. Ég er alltaf að sjá myndir af honum að safna undirskriftum; á skemmtistöðum, í menntaskólum, á elliheimilum, í matvöruverslunum – meira að segja í fimmtugsafmæli einhverrar aumingja konu í veislusal á Höfðabakkanum. Hann er búinn að vera að þessu í 20 ár.
Með fullri virðingu fyrir öllum hinum 35 frambjóðendunum þá langar Ástþór mest af öllum að verða forseti; mig grunar að hann sé tilbúinn að gera nánast hvað sem er.
Þetta minnir mig á fallegu YouTube-söguna af einhverfa boltastráknum hjá McElway-menntaskólanum í New York-fylki. Allt árið hjálpar hann til við að sækja bolta, gefa leikmönnunum vatn – dáist að þeim úr fjarlægð með þann draum heitastan að fá sjálfur að spila. Í síðasta leik ársins ákveður þjálfari liðsins að leyfa honum að spila. Þegar fjórar mínútur eru eftir er honum skipt inn á, bara upp á grínið, og viti menn – okkar maður setur niður sex þrista á þessum fjórum mínútum.
Þannig að kannski, bara kannski, setur Ástþór niður sex þrista fyrir íslensku þjóðina ef við bara gefum honum séns.
Líklega ekki samt.
3. Reykjavík Vikublað er ekki gott áróðursrit
Þegar Björn Ingi Hrafnsson keypti Reykjavík Vikublað, ásamt ellefu öðrum vikublöðum, og réð Björn Jón Bragason sem ritstjóra var nokkuð ljóst hvert markmiðið var. Björn Jón hafði enga reynslu af blaðamennsku aðra en að láta taka myndir af sér þar sem hann lítur út eins og blaðamaður á 3. áratugnum. Hann hefur hins vegar víðtæka reynslu af því að starfa fyrir samtök á borð við Samtök kaupmanna við Laugaveginn og Félag hópferðaleyfishafa þar sem hann starfaði fyrst og fremst við að þvo fætur niðursettra ökutækja í 101.
Hið nýja og endurbætta Reykjavík Vikublað endurspeglar áhugamál nýs ritstjóra. Greinar um slæmt aðgengi ökutækja í miðbænum, mikilvægi Reykjavíkurflugvallar, endalausar aðfarir borgarstjórnar að verslun í miðborginni og viðtöl við fólk um hversu mikið betri hlutirnir voru í gamla daga. Til að fylla upp í eru pistlar eftir gamla sjálfstæðismenn, nýja sjálfstæðismenn og brot úr predikunum og Andríkisgreinum. Einstaka sinnum rofar til í eitt andartak og úr flokkspólitíska fretmystrinu svífur einn gagnlegur greinarstubbur um Gullmót KR í sundi eða Goethe-tónleika í Gerðubergi. En þau andartök eru eins og minningar í höfði langt leidds Alzheimsersjúklings; hverful og skammvinn. Og áður en þú veist af ertu kominn rakleitt í skoðanapistil eftir Markús Örn Antonsson.
Ég skil vel að það sé heillandi að eiga sitt eigið áróðursrit – en hvers virði er það þegar það er svona mikið drasl?
4. Skoðanir eru ógeð, en samt ekki.
Ég verð oft hneykslaður á einhverju sem mér finnast heimskulegar, ljótar eða illa innrættar skoðanir og skrifa þá oft heimskuleg tweet sem ég sé eftir, uninstalla Twitter af símanum mínum og sofna hugsandi um að flytja einn í kofa á miðhálendinu þar sem enginn getur fundið eða náð í mig aftur.
Fólk segir eða gerir eitthvað sem einhverjum þykir hneykslanlegt. Annað fólk hneykslast. Enn annað fólk hneykslast á hneyksluninni og enn stærra mengi ver rétt frum-hneykslarans til að hneykslast.
Þetta er hringrás skoðanaskipta. Krafan um að fólk sé almennt málefnalegt er hvorki raunsæ né sérstaklega skemmtileg.
Einhver segir eitthvað og fólk gagnrýnir og þá gagnrýna þeir þá sem gagnrýna og þá gagnrýna þeir gagnrýndu þá fyrir að gagnrýna aðra fyrir að gagnrýna, og þannig stöndum við öll í risavöxnum hring og rúnkum hvort öðru taktfast með eigin skoðunum, endalaust, því að aldrei sprautast úr okkur einhver algildur sannleikur.
Og það er allt í lagi.
Gildi okkar og sameiginlegt siðferði fæðist ekki í tómi, heldur átökum – rifrildum um eitthvað sem ætti að vera huglægt mat, eins stórkostlega heimskulega og það hljómar. Hneykslumst og rífumst og rúnkum og snípsjúgum okkur í átt að samfélagslegum viðmiðum hvers tíma. Þau eru svo auðvitað ekkert alltaf betri en gömlu viðmiðin. Samt oftast.
Nokkrar bónusskoðanir
- Ég held að stærsta ástæðan fyrir því að við höfum minni sympatíu fyrir fiskum en spendýrum sé sú að þeir eru ekki með augnlok. Það er svo ómanneskjulegt og sálarlaust að blikka ekki.
- Ég veit ekki hvað mér finnst um borgaralaun. Mér finnst pælingin í sjálfu sér alveg nett. Ég veit hins vegar líka að ég mundi mjög líklega enda freðinn og atvinnulaus. Ég er ekki að segja að aðrir myndu enda freðnir og atvinnulausir, en ég mundi mjög líklega vera bæði freðinn og atvinnulaus.
- Sem ég stóð fyrir framan knippi eftir knippi af dökkgrænum bönunum inni í Bónus í gær hugsaði ég með mér að ég væri ekki svona pirraður yfir þessu ef fyrirtækið Bananar hefði ekki greitt fimm milljarða í arð inn í Haga á síðustu fjórum árum. Hvað á ég að gera við þessa fullkomlega óþroskuðu banana? Kaupa þá og sitja svo í tvær vikur og bíða eftir að þeir verði ætir? Þarf ég að byrja að ákveða margar vikur fram í tímann hvenær ég vil borða banana? Setja calendar event í símann fyrir 3. mars sem segir „Kaupa banana til að borða 18. mars“?
- Ég skil ekki hvernig fótboltahagfræði virkar. Opinbert mansal einstaklinga fyrir ótrúlegar upphæðir. Af hverju er þetta ekki svona á öðrum stöðum í atvinnulífinu? „Guðgeir Hannesson hagfræðingur seldur frá Samherja til Straums Burðaráss fyrir 590 milljónir að því gefnu að hann standist læknisskoðun.“
- Ég stóð á rauðu ljósi á verstu gatnamótum Reykjavíkur, þar sem Kringlumýrarbraut mætir Borgartúninu. Á rauðu ljósi stöðvaði bíll. Inni í honum sat Herbert Guðmundsson. Hann lyfti upp höndinni og veifaði mér. Ég veit ekki af hverju Herbert Guðmundsson ætti að veifa mér. Nú upplifi ég mig einstaka sinnum sem einhvers konar jaðar-celebrity á internetinu; kannski er ég loksins kominn í þann afmarkaða klúbb frægra sem veifa öðrum frægum.
Ég var mjög upp með mér og veifaði til baka.
Herbert Guðmundsson var ekki að veifa mér. Herbert Guðmundsson var að laga sólskyggnið í bílnum sínum. Eitt andartak mættust augu okkar í gegn um rósarauð gleraugun hans. Bíllinn keyrði af stað. Ég stóð stjarfur eftir á ljósunum. Það varð grænt, og aftur rautt.
Restinni af deginum eyddi ég sitjandi einn í myrkvaðri íbúð og hugsaði: „Herbert Guðmundsson heldur að þú sért fáviti. Hann veit að þú ert fáviti.“
Þetta er ekki beint skoðun. Ég vildi bara segja: Herbert, ef þú ert að lesa þetta: Værirðu til í að senda mér línu á Facebook? Segja mér að þetta sé allt í lagi, að ég sé flottur strákur og að allir geri mistök. Annars mun þetta sitja í mér að eilífu.