Ég á ekki börn en ég veit að vetrarfrí í grunnskólanna geta reynst mörgum foreldrum erfið. Vinnuveitendur eru ekki allir jafn sveigjanlegir og það getur því verið mikill hausverkur að finna eitthvað að gera fyrir börnin. Sumir taka þau með í vinnuna, sem hljómar í fyrstu spennandi í eyrum barnanna en reynist svo skelfileg lífsreynsla þar sem tíminn líður hægar en fyrir hádegi á aðfangadag.
Alþingismenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessu. Í ár voru þeir sendir í frí á meðan vetrarfríið stóð yfir svo þeir gætu eytt tíma með börnunum sínum. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagði á Eyjunni að það hafi komið eindregin ósk frá nokkrum þingmönnum um að það yrði tekið tillit til þess að vetrarfrí væri í reykvískum skólum. Sem var því gert.
Þegar ég heyri svona fréttir líður mér eins og að það séu tvær þjóðir í landinu: Við og þau. Það yrði aldrei hlustað á búðarfólk ef það myndi í sameiningu óska eftir að verslunum yrði lokað svo það gæti varið tíma með börnunum sínum. Þetta er bara hægt á Alþingi. Óskilvirkasta vinnustað landsins.
En að vera Alþingismaður er samt örugglega hræðilegt. Dagskráin er oft illa skipulögð og þingfundir standa stundum fram á nótt. Þeir þurfa að lesa mikið af leiðinlegum skýrslum og hitta margt leiðinlegt fólk sem ætlast til þess að þeir þjóni hagsmunum þess. Ofan á það eru virkir í athugasemdum með einhvers konar eilífðarskotleyfi á Alþingsmenn ásamt frægu fólki, konum og auðvitað nemendum í Verzlunarskóla Íslands.
Þetta er örugglega glatað en það er samt eitt frábært við að vera Alþingismaður: Fríin. Þau eru löng.
Þingsetning var 8. september á síðasta ári og eftir þrjá erfiða mánuði var síðasti þingfundur fyrir jól áætlaður 11. desember. Næsti þingfundur var svo ekki áætlaður fyrr en 19. janúar, rúmum mánuði síðar. Páskafríið hefst svo 18. mars og stendur í tæpar þrjár vikur til 4. apríl. Loks stendur til að fresta þingi 31. maí en þá tekur við þriggja og hálfs mánaðar sumarfríi þangað til þing hefst á ný 13. september.
Ofan á þetta bættust svo tveir vetrarfrísdagar um daginn.
Ég held að þetta sé hluti af ástæðunni fyrir því að þingið virki svona illa. Ástæðan fyrir því að við hleyptum milljón ferðamönnum til landsins áður en við föttuðum að setja viðvörunarskilti í Reynisfjöru og ástæðan fyrir því að við erum að fatta núna að húsnæðismál séu ekki í góðum málum, þrátt fyrir að það hafi ekki sést byggingarkrani á höfuðborgarsvæðinu í fjögur ár eftir hrun.
Það er hægt að gera þetta betur. Það er til dæmis hægt að stýra landinu jafnt yfir árið — ekki í törnum þar sem allir öskra hver á annan vegna þess að það eru allt of mörg mál á dagskrá miðað við hvað er stutt í næsta frí. Í staðinn fyrir að taka þrjá og hálfan mánuð í sumarfrí mætti taka fimm vikur, eins og gengur og gerist, og stytta bæði jóla- og páskafrí. Þannig væri hægt að dreifa álaginu yfir fleiri daga og koma miklu í verk.
En tveggja þjóða vandamálið ristir dýpra. Í vikunni var til dæmis greint frá því að velferðarráðuneytið verði flutt úr Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík innan tíðar vegna þess að það tókst ekki að uppræta myglusvepp í húsinu.
Ég man ekki hvað það er langt síðan umræðan um myglusvepp hófst á Landspítalanum. Umræðan er allavega búin að vera í gangi svo lengi að myglusveppur sem hefði verið alinn upp sem maður þegar hún hófst væri að ljúka læknanámi í dag. Hann hefði meira að segja haft tíma til að fjármagna námið með sjónvarpsþáttunum Myglusveppi og Auddi.
Ekki misskilja mig. Ég vil að fólk fái tíma til að eyða með börnunum sínum og starf í húsnæði sem er laust við myglusvepp. Þetta snýst bara forgangsröðun. Eitthvað sem ríkið þarf að tileinka sér miðað við umfjöllun Kastljóssins í gær um opinber útgjöld. Stéttaskipt samfélag er óumflýjanlegt. Mér dettur ekki í hug að hafna því og ætla að kaupa Teslu um leið og ég hef efni á henni. En ríkisstyrkt stéttaskipting er hins vegar einhvers konar skilgreining á ósanngirni: Allir borga fyrir eitthvað sem sumir njóta.
Ég vil losna við þetta allt; í rassgat með kóngafólk. Í rassgat með lúxusbíla handa embættismönnum, í rassgat með opinberar ferðir á Saga Class og djúpt, djúpt í rassgat með slæma forgangsröðun á tíma og fjármunum hins opinbera.