Einu sinni trylltist ég. Það var í fjórða bekk í grunnskóla. Ég og besta vinkona mín trylltumst saman. Ástæðan var góð og gild, að okkar mati. Sundkennarinn hafði sagt okkur að þegja og stigið svo á putta vinkonu minnar á stígvélunum sínum á meðan hann danglaði í hausinn á mér með korki. Í það minnsta minnir mig að þannig hafi það gerst. Sú var í öllu falli sagan sem við espuðum hvor aðra upp í, bálreiðar í sturtunni og blindaðar af sjampólöðrandi bræði. Við klæddum okkur skjálfandi, sameinaðar sem aldrei fyrr í brjálæðinu og hétum hvor annarri því að standa saman allt þar til yfir lyki. Við skyldum ná fram biblíulegum hefndum, sundkennsla á Íslandi fengi sko að skrásetja þennan atburð í sögubækur sínar og stígvélaði sadistinn myndi ekki líta glaðan dag framar. Nema hann auðvitað bæðist afsökunar og játaði auðmjúkur syndir sínar. Við vorum trylltar en sanngjarnar.
Á heimleiðinni tók þó að rjátlast af mér. Ekki vinkonu minni. Hennar réttlætiskennd hafði alltaf yfirskyggt mína, eitt sinn beit hún til að mynda köttinn sinn því að hann beit hana. Ég samsinnti gífuryrðum hennar með semingi, hreint ekki eins innblásin og áður og satt að segja orðin spenntari fyrir kæfubrauði og kakói en nemendalýðræði og atlögu gegn sundkennslu. Í sárum og réttmætum vonbrigðum sínum snérist vinkonan gegn mér, ónytjungur gat ég verið. Við sem höfðum ætlað að skrifa kvörtunarbréf. Mér var alveg sama. Ég hafði brjálast of mikið og öll eftirfylgni var þar með ónýt. Ég var komin með ógeð og langaði bara í kakó.
Íslensk samfélagsumræða er trylltur fjórðibekkingur með ámóta athyglisspan. Undanfarin misseri hafa verið undirlögð af allskyns sketsum úr leikhúsi fáránleikans. Við æðum um netlendur sturluð í augunum og þeytumst stjórnlaust öfganna á milli, ofurseld þeirri alltumlykjandi og lamandi kröfu að okkur beri að finnast eitt og annað um allt, annars verðum við dæmd óupplýst og skeytingarlaus. Við hoppum hlýðin á hvern þann skoðanavagn sem framhjá fer í flestum málum, jafnvel án þess að þekkja hið minnsta til og erum svo óvart farin að stíla morðhótanir á mötuneyti Fellaskóla eða brenna íslenska landsliðsbúninginn án þess að muna almennilega ástæðuna. Tjáningarfrelsi er mikilvægt og þöggun er afleit, en það að gjaldfella alla umræðu með æðisgengnum ofstopa er álíka alvarlegt, svo ekki sé minnst á óþolandi.
Eins lýjandi og leiðinleg og slík upphlaup geta verið er það þó sjálft innræti þeirra, hið óáreiðanlega eðli æðiskasta, sem er hvað alvarlegast. Þeim vill síðan fylgja óhjákvæmilegt ógeð, uppgjöfin algjöra að storminum loknum þegar maður vill bara fá sér kakó. Oft grundvallast nefnilega slík æði á einlægri ósk okkar til að gera betur og laga það sem miður fer og því velja æðin sér í samræmi við það gjarnan verðugan farveg, hengja sig á mikilvægari málefni en pítsusvindl og landsliðsbúninga.
Á haustmánuðum fengum við æði fyrir flóttamönnum. Um stund opnuðum við augun fyrir veruleikanum og allri hans vonsku, urluðumst eitt augnablik og æptum á innsoginu hvert í kapp við annað allskyns kröfur og loforð. Innblásin af óskiljanlegri mynd af drukknuðu barni á tyrkneskri ströndu leyfðum við öllum vörnum að hrynja og brugðumst við á þann eina hátt sem eðlilegt er, með örvæntingu og ofsareiði. Svo leið æðið hjá. Ekki svo að skilja að flóttamannavandinn hafi gufað upp, langt í frá. Að meðaltali drukkna tvö börn á dag í Miðjarðarhafinu, á flótta undan átökum og eymd. Í fyrradag, á deginum sem markaði upphaf stríðsins í Sýrlandi fyrir fimm árum, stóð UNICEF á Íslandi fyrir táknrænni athöfn við sjávarsíðuna þar sem fjögur hundruð böngsum var raðað upp meðfram sjónum, einum bangsa fyrir hvert drukknað barn frá því að umrædd mynd birtist í september. Fjögur hundruð börn síðan æðið hófst í haust. Æði fáir lögðu leið sína á athöfnina. Við viljum ekki hugsa um þetta. Við viljum bara kakó.
Þannig umhverfast æði yfirleitt í andhverfu sína. Við springum og getum ekki meir, bugumst undan eigin vanmætti andspænis ókleifri illsku og snúumst í sjálfsvörn. Þaðan bítum við svo grimm í bragði frá okkur og lýsum yfir algjörri uppgjöf. Skrollum hratt framhjá myndum af drukknuðum börnum, þótt okkur svelgist kannski ögn á kakóinu. Eðlilega. Við deyfum okkur og vonleysið tekur við. Við neitum að lifa okkur inn í aðstæður og finna til með fólki því það er einfaldlega of vont.
Við getum ekki leyst öll heimsins ósköp. Engum dettur það til hugar. Það er hins vegar sturluð afstaða að gera ekkert vegna þess að við getum ekki gert allt. Því við getum gert allskonar. Við getum stutt hjálparstofnanir, verið virkir þátttakendur í málefnalegri umræðu, ýtt á stjórnvöld í málefnum flóttamanna, seiglast áfram í því að krefjast mannréttinda og friðar í hvívetna, allsstaðar, á öllum vettvöngum. Magnaðar framfarir og árangur næst á degi hverjum um heim allan vegna þess að einstaklingar gera það sem þeir geta. Gróðursetjum tré þó að veðurfréttirnar spái heimsendi. Gerum það sem við getum. Skálum síðan í kakóinu í sæmilegri sátt.